144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

695. mál
[20:03]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég sé það núna hérna að það er þjóðaröryggisráð sem ég ætlaði að segja, ekki þjóðaröryggisstofnun, en hv. þingmaður svaraði í samræmi við þjóðaröryggisráð þannig að það er fínt.

Ég velti fyrir mér að hvaða leyti slík stofnun gæti hagað starfsemi sinni með sem gegnsæjustum hætti. Nú er mikilvægt að við ræðum og ákveðum eitthvað með öll þessi mál, en mér finnst mikilvægt í allri þessari umræðu að við séum ekki blind fyrir því að það eru ákveðnar hættur við varnarmálastofnanir sjálfar í eðli sínu í öllum ríkjum. Þær þurfa ýmsar valdheimildir, þær þurfa að sanka að sér upplýsingum, þær þurfa að gera alls konar hluti sem við mundum aldrei fela stofnunum að gera, nema vegna mjög alvarlegra ógna eða að gríðarlega miklir hagsmunir séu í húfi. Mér finnst alltaf mikilvægt að við förum varlega og áttum okkur á því nákvæmlega hvað það er sem við ætlum að taka okkur fyrir hendur í öryggismálum. Úr alvarleika stöðu mála dreg ég ekki eins heimsmálin eru í dag, þau eru mjög alvarleg, en ég velti fyrir mér hvort svona þjóðaröryggisráð eða öllu heldur hvernig starf þjóðaröryggisráðs eða sambærilegra battería — sem mér þykir hv. þingmaður rökstyðja mjög vel — geti verið sem gegnsæjast þannig að það sé sem skýrast hvað nákvæmlega sé fyrir hendi og ekki síst til þess að draga úr tortryggni almennings gagnvart slíkum ráðum og stofnunum.