144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

695. mál
[20:17]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Ég kom lítillega að undirbúningi þessarar vinnu þegar ég tók sæti í þingmannanefndinni sem vann undirbúninginn að tillögunni sem hæstv. utanríkisráðherra hefur nú lagt fram, þannig að mér er málið lítillega skylt.

Fyrst vil ég segja að ég, eins og aðrir hv. þingmenn sem hér hafa talað, er sammála því að mjög mikilvægt sé að við breikkum öryggishugtakið og þjóðaröryggishugtakið sem var ekki síst ætlunin með þessari vinnu allri saman, þ.e. að reyna að ná fram heildstæðri greiningu á því hvað séu helstu ógnirnar við öryggi Íslendinga. Það er áhugavert að skoða tillögur nefndarinnar þar sem reynt var að flokka niður hvað væru verstu ógnirnar við öryggi Íslendinga, en nefndin gerði atlögu að því að reyna að flokka niður ólíka þætti. Í fyrsta flokki hjá nefndinni voru settar þær hættur sem nefndin taldi helst að ætti að setja í forgang með hliðsjón af viðbúnaði og fjármunum. Þar má finna í skýrslu nefndarinnar umhverfisvá eða slys vegna aukinna umsvifa á norðurslóðum, netógnir og skemmdarverk á innviðum samfélagsins og náttúruhamfarir.

Í flokki tvö í skýrslu nefndarinnar var að finna ógnir sem nefndin setti skör lægra en þarfnast eigi að síður fullrar athygli. Þar má finna skipulagða glæpastarfsemi, fjármála- og efnahagsöryggi, fæðu og matvælaöryggi og heilbrigðisöryggi og farsóttir.

Í þriðja flokki er að finna hættur í skýrslu nefndarinnar sem ólíklegt er að steðji að hér að en mundu á hinn bóginn vega að fullveldi og sjálfstæði landsins með slíkum hætti að nauðsynlegt væri að gera ráðstafanir gegn þeim. Þar má finna hernaðarógn og hryðjuverk. Í tillögu hæstv. ráðherra hafa hryðjuverk verið færð upp í flokk tvo og vísað til ótryggs ástands í alþjóðamálum því til rökstuðnings. Það sem ég hefði viljað sjá öðruvísi með farið er að síðan eru í tillögunni sjálfri tíu tölusettir liðir þar sem sagt er að þjóðaröryggisstefnan eigi að fela í sér eftirfarandi áherslur. Þar sé ég ekki betur en að hið hefðbundna öryggis- og varnarsamstarf, sem snýst um hernaðarmál og hryðjuverk, sé nánast helmingur af þeim tíu markmiðum, þ.e. að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu verði áfram lykilstoð í vörnum Íslands og meginvettvangur vestrænnar samvinnu, að varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna tryggi áfram varnir Íslands, áfram verði unnið að þróun samstarfsins á grundvelli samningsins þar sem tekið verði mið af hernaðarlegum ógnum, að efla og þróa enn frekar norræna samvinnu um öryggis- og varnarmál og annað grannríkjasamstarf. Síðan er talað um varnarmannvirki, búnað, getu og sérfræðiþekkingu.

Ég velti fyrir mér til að mynda náttúruvá, sem við hljótum öll að vera mjög meðvituð um á þeim tímum sem við lifum, tímum loftslagsbreytinga þar sem við horfum fram á auknar öfgar í veðurfari svo dæmi sé tekið, að það sé í raun og veru afgreitt sem stefna stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum, sé hluti af þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Þetta er samt liður sem við setjum í fyrsta flokk og það er líka gert í tillögum hæstv. ráðherra og ég hefði talið að þarna ættum við að horfa til þessa máls. Það er það sem þjóðir eru að gera, það er það sem borgir eru að gera, þær eru að setja niður stefnu um hvernig eigi að bregðast við þeim hættum sem stafa af auknum öfgum í veðurfari og breytingum á loftslagi. Mér finnst ég ekki sjá þá ógn sem birtist hér í fyrsta flokki, mér finnst ég ekki sjá hana endurspeglast í þessum tíu áhersluatriðum, svo dæmi sé tekið. Vissulega er rætt um netöryggi og mér finnst það jákvætt, því að það er alveg ljóst að það er vaxandi ógn. Mér finnst ég hins vegar ekki sjá endurspeglast til að mynda það sem þarf til að geta brugðist við alþjóðlegri heilbrigðisvá. Við sáum það til dæmis þegar ebólufaraldurinn geisaði sem harðast í ríkjum Afríku, þá vöknuðu efasemdir hjá mörgum um að við værum hreinlega í stakk búin til að takast á við það ef slíkt tilfelli bærist til Íslands. Ég held því að við þurfum að vera miklu meðvitaðri um þá þætti, það á að vera sú grundvallarhugsun sem einkennir þessa stefnu.

Ég vil að sjálfsögðu nota tækifærið og fagna sérstaklega níunda áhersluatriðinu af þessum tíu sem er að Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnavopnum að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga í því augnamiði að stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu. Ég kveð mér líka hljóðs til að segja að ég mundi helst vilja sjá þetta sett í lög. Við eigum samþykkta þingsályktun, við eigum yfirlýsingar frá yfirgnæfandi meiri hluta sveitarfélaga á landinu um að þau vilji vera kjarnorkuvopnalaus og með því að festa það í lög værum við að stíga markvisst skref sem yrði eftir tekið í afvopnun í heiminum. Rétt eins og hæstv. ráðherra hefur núna lagt fram frumvarp til laga um fullgildingu samnings gegn klasasprengjum vona ég að ég fái að sjá frumvarp um að við lýsum okkur kjarnorkuvopnalaust svæði. Það væri mikið framfaraskref. Það er stuttur tími til að ræða jafn stórt mál en við fáum tækifæri til að ræða það í hv. utanríkismálanefnd, en veltum fyrir okkur hverjar ógnirnar eru og því að nefndin komst að þessari niðurstöðu, sem ég held að þurfi að birtast betur í þessari tillögu.

Hér er líka nefnt að stofna eigi þjóðaröryggisráð og ef við lesum áherslupunktana tíu og segjum hverjir eigi að sitja þar þá kynnu það fyrst og fremst að vera sérfræðingar í því sem við getum kallað hefðbundnum varnarmálum. Það á eftir að leggja fram frumvarp um þetta, en ég sæi fyrir mér ef við ætluðum að setja niður þjóðaröryggisráð sem endurspeglar þá breiðu sýn ættum við einmitt að hafa þar sérfræðinga í netöryggi, sérfræðinga í loftslagsvá, sérfræðinga í náttúruhamförum, það er fólkið sem ætti að skipa þjóðaröryggisráð okkar miðað við þær ógnir sem við höfum lagt hér niður og reynt að greina. Við ættum að hafa þar landlækni til að bregðast við ógnum á sviði heilbrigðismála. Ég held því að mjög mikilvægt sé að við veltum því fyrir okkur, því að þetta er eitt af lykilatriðunum í stefnunni, að þetta ráð verði sett á laggirnar, hvað við ætlum okkur með það. Á það að verða einhvers konar hefðbundin varnarmálastofnun, eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson viðraði efasemdir um áðan, eða á þetta að verða þjóðaröryggisráð sem tekur mið af þeim sjónarmiðum sem eru viðruð í greinargerð um að þessi stefna eigi að byggjast upp á öðrum forsendum en þeim hefðbundnu hernaðar- og varnarsjónarmiðum sem við höfum séð hingað til í umræðunni? Ég hefði því viljað sjá gengið lengra í tillögunni, að farið væri dýpra ofan í þau atriði sem allir eru sammála um, bæði hæstv. ráðherra og nefndin, að séu flokkur eitt. Mér finnst ég ekki sjá það í þessum tíu áherslupunktum.

Að lokum langar mig að minna á bókun fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem sú sem hér stendur og hv. fyrrverandi þingmaður Árni Þór Sigurðsson lögðu fram. Þar segir, með leyfi forseta:

„Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill leggja sitt af mörkum til að sem víðtækust samstaða sé um stefnu Íslands í þjóðaröryggismálum, stefnu sem tekur mið af breyttum aðstæðum í alþjóðamálum þar sem sagt er skilið við kalda stríðið. Þær tillögur sem nú liggja fyrir taka í meginatriðum mið af þessum breyttu aðstæðum. Í stað þess að miðast eingöngu við ríkisvaldið, hervarnir eða ógnir frá ríkjum eða ríkjabandalögum, eins og í kalda stríðinu, hefur öryggishugtakið verið víkkað út með það fyrir augum að ná yfir „nýjar ógnir“, þ.e. hnattræna eða þverþjóðlega, samfélagslega og mannlega áhættuþætti, eins og skipulagða glæpastarfsemi, hryðjuverk, efnahagskreppu, ólöglega fólksflutninga, mansal, matvælaöryggi, náttúruhamfarir, farsóttir, umhverfisógnir og fjarskipta-, net- og orkuöryggi. Vinstri hreyfingin – grænt framboð er sammála þessari nálgun og fagnar því sérstaklega að skýrsla nefndarinnar hefur að geyma tillögu um að unnið verði að því að Ísland verði friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum og leitað leiða til að afla slíkri friðlýsingu alþjóðlegrar viðurkenningar.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð telur þó að áherslan á aðild að Atlantshafsbandalaginu og þátttöku m.a. í loftrýmiseftirliti rími illa við þá breiðu nálgun á þjóðaröryggisstefnu sem að öðru leyti er samstaða um. Það er skýr stefna VG að Ísland sé herlaust land og standi utan hernaðarbandalaga en efli frekar þátttöku sína í stofnunum Sameinuðu þjóðanna þar sem öll ríki eiga aðild, svo og í stofnunum eða samtökum eins og Norðurlandaráði, Evrópuráðinu og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu. Fulltrúar VG í nefndinni standa því ekki að þeim tillögum nefndarinnar er lúta að og/eða leiða af aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, en styðja tillögurnar að öðru leyti.“

Ég vil nota þessar síðustu 30 sekúndur sem ég á eftir til að segja að ef við ætlum að vinna að friði í heiminum skiptir líka miklu máli að við stuðlum og tölum fyrir friðsamlegum leiðum og lausnum, hvar sem við getum og hvenær sem við getum. Það er ekki friðsamlegur heimur þar sem hundruð flóttamanna eru að drukkna á Miðjarðarhafi og við eigum að leggja okkar af mörkum til þess að koma í veg fyrir þennan flóttamannastraum með því að stuðla að friðsamlegum lausnum heima fyrir, í þeim löndum þaðan sem þetta flóttafólk kemur, leggja okkar af mörkum í björgunaraðgerðum, eins og við höfum verið að gera og við eigum að halda áfram að gera. Stærsta ógnin við frið í heiminum, í samtímanum, er vaxandi ójöfnuður heimshluta á milli og innan heimshluta, bara svo að við lítum á Afríku, Miðausturlönd. Við eigum að leita allra leiða til að (Forseti hringir.) geta látið gott af okkur leiða og þar geta smáríki haft mikið að segja. Með því erum við að leggja lóð á vogarskálarnar fyrir öruggari heimi fyrir alla.