145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

verkefni ríkisstjórnarinnar.

[11:36]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það hefur verið boðað í dag að hæstv. ráðherra muni verða nýr forsætisráðherra landsins. Hér heyrðum við auðmýktina, tóninn sem sleginn hefur verið á fyrsta degi í því embætti. Það þarf enginn að biðjast afsökunar. Þess þarf ekki. Það er nóg að benda bara á síðustu ríkisstjórn. Er einhver úr henni sem átti fé í skattaskjólum? Nei.

Þetta er það sem er að koma okkur í heimspressuna núna. Það er umræða um að fulltrúar stjórnvalda á Íslandi hafi átt fjármuni í skattaskjólum.

Virðulegi forseti. Við skulum halda fókus á vandanum þannig að við getum leyst úr honum.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér þykir miður að sjá hæstv. ráðherra koma hér upp og finnast þetta bara eins og þreytandi nudd í sér, eitthvert suð í fólki. Hann tekur þetta ekki alvarlega. Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að fylkja þjóðinni að baki sér með þessum orðum?

Ég vil fá að vita frá hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) hvort hann ætli að verða við kröfunni um kosningar strax. Ef ekki, hvaða tímasetning verður sett á nýjar kosningar?