145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

endurheimt trausts.

[11:55]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mér finnst ég ekki hafa fengið almennileg svör hér. Ég var ekki að vísa í samtal á milli flokkanna heldur það sem kom fram á blaðamannafundi ykkar í stiganum. Ég óska ykkur til hamingju með stigamannastjórnina.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra af hverju í ósköpunum hann telji að þessir flokkar séu hinir einu sem geti klárað afnám hafta. Telur hæstv. ráðherra virkilega að þið njótið trausts og trúnaðar til að klára þá vinnu? Af hverju geta ekki einhverjir aðrir flokkar gert það? Þetta hefur verið unnið í þverpólitískri samvinnu á þinginu, af hverju getur það þá ekki haldið áfram þó að þið séuð ekki með ykkar nöfn tengd við það?

Það er ekkert endilega í þágu þjóðarhagsmuna að nafn núverandi fjármálaráðherra sé tengt við þetta afnám, hvað þá þess forsætisráðherra sem nú hefur aðeins stigið til hliðar en ekki sagt af sér.