145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

notkun skattaskjóla.

[12:00]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég tel eðlilegast að ég felli ekki dóma um það. Ég er ekki vanur því að fella dóma um kosti mína eða galla. Ég reyni að horfa í gallana og reyni að bæta þá eins og ég vona að flestir einstaklingar geri. En ég tel að aðrir verði að dæma um það hvernig ég muni reynast sem forsætisráðherra.

Ég held að það sé mikilvægt að við getum tekið hér hreinskiptna og málefnalega umræðu um ýmsa þætti. Þess vegna getum við ekki verið að dæma fólk með gríðarlegum yfirlýsingum, gildishlöðnum, um hvað hafi gerst án þess að taka tillit til þess hvað er löglegt, hvað hefur verið gert samkvæmt íslenskum lögum, m.a. lögum sem hv. þingmaður tók þátt í að setja — hún var hér í síðustu ríkisstjórn bæði sem þingmaður og ráðherra og áhrifamaður innan Samfylkingarinnar og þeirrar ríkisstjórnar.

Þá væru menn að segja: Þau lög eru ekki nægilega góð. Við verðum að gera eitthvað annað. Það er búið að taka á því, eins og komið hefur fram í umræðunni, og ávinningur af slíku, að setja fé, þótt með löglegum hætti sé og allt sé upplýst og greiddir skattar — það er búið að taka meginþungann af þeim ávinningi í burt.

Mér fellur illa að slíkt fé sé geymt eða slíkir staðir notaðir. Mér finnst eðlilegast að menn séu með fjármuni í því kerfi sem við erum með. En við búum líka í alþjóðlegu umhverfi þar sem við teljum eðlilegt að við stundum alþjóðaviðskipti. Þá er ekkert óeðlilegt að menn séu með það, sem er löglegt.

Ég vil ítreka það sem ég sagði hér fyrr í dag að ég vil hvetja alla þá sem eru með fjármuni á slíkum stöðum til að koma með peningana heim, láta þá virka í íslensku hagkerfi eða fyrir íslenskt samfélag. Ef (Forseti hringir.) það er þannig að menn séu að svíkja undan eða leyna einhverju vil ég hvetja þá til að nota nú tækifærið, stíga fram og gera hreint fyrir sínum dyrum.