145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

afstaða ráðherra til skattaskjóla og afsökunarbeiðni.

[12:30]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Mér finnst allir þeir punktar sem hafa komið fram í umræðunni í dag vera ótrúlega réttmætir og mikilvægir.

Það er eitt sem mig langar aðeins að nefna og mér finnst vera mikið áhyggjuefni, það er meðvirknin sem hefur verið í gangi hjá þingmönnum Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins með sinni forustu. Meðvirkni getur verið stórhættuleg og þessi leiðtogadýrkun. Það er langt síðan það afhjúpaðist að keisarinn var ekki í neinum fötum. En sá tími sem það tók stjórnarflokkana og kannski Framsóknarflokkinn að grípa til aðgerða var allt of langur og hefur bakað okkur tjón. Ég vil þó hrósa vinum mínum framsóknarmönnum á Akureyri fyrir að hafa tekið af skarið þótt seint væri. En meðvirkni í pólitík á ekki að líðast. Þessari leiðtogadýrkun verður líka að linna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Þetta er kannski aukaatriði í stóra samhenginu en ég verð að segja, virðulegur forseti, að mér hefur ofboðið sú meðvirkni sem hefur verið í gangi hérna.