149. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2019.

landlæknir og lýðheilsa og réttindi sjúklinga.

757. mál
[20:09]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum spurninguna. Það er rétt sem kemur fram í þeim tóni sem hv. þingmaður slær, að þegar við erum hér að stytta þennan frest hefur það í raun og veru þann beina tilgang líka, burt séð frá því hversu önugt það getur verið að grafa upp einhver atvik sem eru löngu að baki, að skýrara og ríkara samtal sé milli notenda og veitenda þjónustunnar, að það sé partur af gæðanálgun allrar heilbrigðisþjónustu að greið leið sé fyrir notendurna til að koma athugasemdum sínum á framfæri án þess að það sé mjög þunglamalegt kerfi.

Það er hins vegar alveg rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns að ekki er þar með sagt að það sé alls staðar í kerfinu, þar sem við erum að tala um sjúklingatryggingar og því um líkt eða þyngri parta kerfisins, að þar eigi að stytta fresti að sama skapi. Við erum að tala um þetta þingmál sem hefur beinlínis þann skilgreinda tilgang að auka gæði og öryggi þjónustunnar. Þetta er skref í áttina að því.

Hv. þingmaður spyr líka hvort fara ætti fetið og fara hægar í sakirnar í þeim efnum. Eins og ég rakti í svari mínu við andsvari hv. þm. Guðjóns Brjánssonar er það vangavelta í hvert skipti sem tekin er ákvörðun um að gera þetta. Eins og hv. þingmaður veit horfum við oft til landanna í kringum okkur. Því að fara fetið, ef ég nota orðalag hv. þingmanns, mætti kannski lýsa helst í þeim þætti sem lýtur að því að það sé háð mati landlæknis á hverjum tíma ef liðinn er lengri tími en þau fimm ár sem um ræðir.