149. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2019.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

784. mál
[20:41]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Í frumvarpinu eru lagðar til tvær efnislegar breytingar, í fyrsta lagi varðandi eftirlit með skilum á nýtingaryfirliti vegna skráðrar heimagistingar og í öðru lagi vegna viðurlaga við brotum á reglum um rekstrarleyfisskylda gististarfsemi. Frumvarpið var samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og báðar breytingarnar varða starfssvið sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.

Með tilkomu deilihagkerfisins hefur heimagisting á undanförnum árum orðið veigamikill hluti af gististarfsemi í landinu. Það má til sanns vegar færa að án tilkomu hennar hefðum við átt í verulegum vandræðum með að taka á móti öllum þeim fjölda ferðamanna sem hingað hefur streymt frá því að ferðaþjónustan byrjaði að vaxa sem atvinnugrein í kjölfar gossins í Eyjafjallajökli árið 2010. Lagaákvæði um regluverk tengt útleigu fasteignar í skráðri heimagistingu tóku gildi þann 1. janúar 2017. Síðan þá hefur sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu annast málefni tengd eftirliti heimagistingar en aðilum sem ætla að nýta heimild til útleigu samkvæmt ákvæðum um heimagistingu er skylt að lögum að skrá sig hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.

Í kjölfar lögfestingar heimildar til útleigu fasteignar í þágu einstaklings til heimagistingar jókst nýting á heimild til útleigu töluvert, en árið 2017 samþykkti sýslumaður 1.059 skráningar á heimagistingu. Árið 2018 var næstum tvöföldun í skráningum en það árið voru 2.022 fasteignir skráðar í heimagistingu. Í janúar sl. var aukning í skráningum orðin 400% miðað við janúar 2018. Þessa aukningu í skráningum má ekki eingöngu rekja til þess að fleiri einstaklingar vilji nýta sér umrædda heimild til útleigu árið 2019 en 2018 heldur einnig og ekki síður til þess að eftirlit með heimagistingu hefur aukist til muna undanfarna mánuði. Þar munar verulega um það að í júlí 2018 veitti ég 64 millj. kr. fjárveitingu til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu til að efla það eftirlit með svokallaðri heimagistingarvakt. Heimagistingarvaktinni var komið á fót til að mæta þeim óhjákvæmilegu áskorunum sem fylgja breyttu umhverfi gististarfsemi á Íslandi, m.a. með auknum fjölda ferðamanna sem kjósa að nýta sér heimagistingu í gegnum netsvæði eins og Airbnb og Booking.com.

Þetta má einnig sjá í mörgum öðrum borgum Evrópu sem hafa mætt sambærilegum áskorunum. Með því á ég bæði við áskoranir gagnvart nærumhverfi, þ.e. samfélaginu sem heimagisting fer fram í með tilheyrandi röskun fyrir íbúa í íbúðarhverfum þar sem gististarfsemi er að öðrum kosti ekki leyfð og jafnframt á ég við áskoranir fyrir greinina og samkeppnisumhverfi innan hennar, en rekstrarleyfisskyldir gististaðir hafa margir hverjir gert verulegar athugasemdir við óskráða heimagistingu sem fer langt umfram þær heimildir sem til staðar eru í lögunum. Þannig telja þeir að óskráð heimagisting grafi undan starfsemi þeirra og raski samkeppnisstöðu umfram það sem eðlilegt getur talist. Heimagistingarvaktinni er því fyrst og fremst ætlað að taka á og draga úr svartri atvinnustarfsemi tengdri gististarfsemi í landinu. Óhætt er að segja að það hafi borið árangur. Skráningar hafa aukist, fjöldi vettvangsferða hefur verið farinn af hálfu sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu til að fylgja eftir ábendingum sem borist hafa um ólöglega gististarfsemi og sektargreiðslur ríkissjóðs nema tugum milljóna króna frá því að átakið hófst. Árangurinn hefur einnig afleidd áhrif, svo sem á samkeppni innan greinarinnar og rétt skattskil einstaklinga.

Þrátt fyrir þann árangur sem þegar hefur náðst er ljóst að enn fer fram skammtímaleiga hérlendis án tilskilinna leyfa eða skráningar. Því er lagður til í frumvarpinu sem ég mæli nú fyrir rammi til að festa í sessi að efla þetta mikilvæga eftirlit enn frekar til að fylgja eftir árangursríku átaksverkefni heimagistingarvaktar.

Með þeim breytingum sem lagðar eru fram í frumvarpinu er lagt til að eftirlit með heimagistingu verði eflt enn frekar, auk þess sem málsmeðferð og viðurlög vegna brota á skráningarskyldri og rekstrarleyfisskyldri gististarfsemi verði samræmd. Þannig er í frumvarpinu í fyrsta lagi lagt til að sýslumanni verði heimilt að beita stjórnvaldssektum ef aðili með skráða heimagistingu vanrækir að skila inn nýtingaryfirliti. Nýtingaryfirlit er yfirlit yfir þá daga sem húsnæði var leigt út á hverju almanaksári ásamt upplýsingum um leigutekjur viðkomandi leigusala. Samkvæmt 13. gr. núgildandi laga er aðilum með skráða heimagistingu skylt að skila inn nýtingaryfirliti við lok hvers almanaksárs. Hvað sem þeirri skyldu líður vanrækti næstum helmingur, 46%, einstaklinga sem skráðu heimili sitt til heimagistingar árið 2018 að skila inn nýtingaryfirliti. Engin viðurlög eru við því samkvæmt núgildandi lögum að vanrækja skil á nýtingaryfirliti og hefur sýslumaður því ekki haft önnur úrræði en að beina því til skráðra aðila að skila því inn. Markmið með breytingunni er þannig að veita sýslumanni úrræði til að knýja fram skil á nýtingaryfirliti með því að leggja stjórnvaldssektir á skráða aðila sem vanrækja að skila því.

Í frumvarpinu er í öðru lagi lögð til tilfærsla verkefna frá lögreglustjórum til sýslumanns. Samkvæmt núgildandi lögum hefur sýslumaður eingöngu heimild til að beita einstaklinga sektum vegna brota á reglum um skráningarskylda heimagistingu. Ef brot varðar hins vegar rekstrarleyfisskylda gististarfsemi þarf lögreglustjóri að gefa út sérstaka ákæru.

Síðan lagaákvæðin um heimagistingu tóku gildi hefur komið í ljós að fyrirkomulagið er því miður ekki jafn skilvirkt og vonir stóðu til. Það stafar af því að þegar sýslumanni berst ábending um óleyfilega skammtímaleigu er í fyrstu erfitt að sjá hvort um skráningarskyldan eða rekstrarleyfisskyldan aðila er að ræða. Í framkvæmd hefur sýslumaður því unnið með ábendingar vegna rekstrarleyfisskyldra aðila og sent áfram til lögreglustjóra sem fara með beitingu viðurlaga í rekstrarleyfisskyldri gististarfsemi. Þar sem lögreglustjórar hafa vissulega mörgum hnöppum að hneppa og þurfa að forgangsraða málum eftir alvarleika og öryggissjónarmiðum hefur þetta leitt til þess að mál sem varða brot á rekstrarleyfisskyldri gististarfsemi ná ekki með nægilega skilvirkum hætti fram að ganga. Hér er þess vegna um að ræða mjög ólíka málsmeðferð, annars vegar hjá sýslumanni og hins vegar hjá lögreglustjórum, sem getur auðveldlega leitt til ólíkrar niðurstöður fyrir sambærileg brot, þ.e. brot tengd skráningarskyldri gististarfsemi annars vegar og rekstrarleyfisskyldri gististarfsemi hins vegar. Með öðrum orðum getur ójafnræði auðveldlega skapast milli aðila sem brjóta sambærilegar reglur í sambærilegri starfsemi.

Með breytingunni er markmiðið þess vegna fyrst og fremst að koma í veg fyrir ójafnræði með því að leggja til að beiting viðurlaga fyrir brot í rekstrarleyfisskyldri gististarfsemi færist frá lögreglustjóra til sýslumanns. Með þessari útfærslu verður komið í veg fyrir ósamræmi, málsmeðferð verður flýtt og hún samræmd, ásamt því að dregið verður úr kostnaði sem hlýst af kostnaðarsamri ákærumeðferð fyrir dómstólum. Ef sú breyting sem lögð er til í frumvarpinu verður að lögum mun hún leiða til þess að aðilar sem stunda skammtímaleigu, hvort sem er án tilskilinna leyfa eða skráningar, munu hljóta sambærilega málsmeðferð hjá sama embætti. Þá er ljóst að þrátt fyrir að sýslumaður legði sambærilegan sektarkvarða til grundvallar fyrir skráningarskylda og rekstrarleyfisskylda starfsemi yrði þyngri fésektum almennt beitt á rekstrarleyfisskylda aðila í ljósi þess að sýnileg brot eru í flestum tilfellum fleiri. Auk þess eru brotin oftast alvarlegri í skilningi laganna. Af því leiðir að málefnaleg sjónarmið lægju til grundvallar beitingu þyngri fésekta gagnvart rekstrarleyfisskyldum aðilum.

Að lokum er vert að taka það einnig fram að auk þess er lagt til að skerpt verði á því að sýslumanni sé sjálfum heimilt að afla gagna sem má leggja til grundvallar ákvörðunum um að beita einstaklinga eða lögaðila stjórnvaldssekt vegna brota á lögunum. Frumvarpið kallar hvorki á breytingar á hegningarlögum né öðrum lögum og hefur verið unnið í góðu samráði við dómsmálaráðuneyti og önnur stjórnvöld.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.