149. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2019.

almenn hegningarlög o.fl.

796. mál
[20:49]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög og lögum um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur. Markmiðið með frumvarpinu er að stemma stigu við misnotkun á hlutafélagaforminu og kennitöluflakki svokölluðu í atvinnurekstri. Frumvarpið byggir á sáttmála ríkisstjórnarflokkanna en þar er m.a. að finna umfjöllun um stefnu ríkisstjórnarinnar í vinnumarkaðsmálum og er kennitöluflakk þar sérstaklega tilgreint.

Frumvarpið er unnið í samvinnu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, dómsmálaráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis en með því er stigið skref í að bregðast við sameiginlegum tillögum Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins frá júní 2017 um leiðir til að sporna við kennitöluflakki í atvinnurekstri.

Ráðuneytin þrjú hafa undanfarin misseri haft tillögur samtakanna til skoðunar en tillögurnar eru í níu liðum og varða nokkur málefnasvið. Sú tillaga sem hvað mest áhersla hefur verið lögð á er tillaga samtakanna um að hægt sé að úrskurða einstakling í atvinnurekstrarbann í tilteknum tilvikum. Ráðuneytunum þremur var falið að skoða nánar hvort hægt væri að útfæra tillögur ASÍ og SA um atvinnurekstrarbann með þeim hætti sem væri mest í samræmi við almenna málsmeðferð hér á landi. Í þessu sambandi verður að hafa í huga að mikilvægt er að meðferð mála sem þessara gangi hratt fyrir sig og því nauðsynlegt að huga að málsmeðferðinni hvað það varðar. Við mat á því hvaða útfærsla á atvinnurekstrarbanni komi helst til greina togast á sjónarmið um skilvirkni og almannahagsmuni annars vegar og réttaröryggi borgaranna hins vegar.

Líta má á það frumvarp sem hér er lagt fram sem ákveðið fyrsta skref en í greinargerð með frumvarpinu er boðað að lagt verði fram frumvarp á næsta löggjafarþingi til breytinga á lögum um gjaldþrotaskipti. Er þar um að ræða viðbót til fyllingar þeim breytingum sem eru lagðar til í frumvarpi þessu. Vinna við þær lagabreytingar er í höndum dómsmálaráðuneytis og hún er þegar hafin og verður haft samráð við ASÍ og SA við útfærslu á því frumvarpi í framhaldi af því samráði sem átt hefur sér stað undanfarna mánuði.

Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu ná þær breytingar sem þar eru lagðar til ekki að fullu því markmiði að vernda kröfuhafa og samfélagið í heild fyrir hættu á tapi sem væri líklegt að hljótist af misnotkun á hlutafélagaforminu. Þannig má gera ráð fyrir að töluverðar líkur séu á að flest þau tilvik sem alvarlegust eru og líklegust til að valda samfélagslegu tjóni verði í tengslum við greiðsluþrot og síðar gjaldþrot félaga.

Virðulegur forseti. Það er ekki ólöglegt hér á landi að verða gjaldþrota og það er eðlilegur hluti af atvinnulífi. Þessu er mjög mikilvægt að halda til haga í allri umræðu um þessi mál. Þvert á móti er mikilvægt að gæta meðalhófs við leit að leiðum til úrbóta og að þær aðgerðir sem ráðist er í séu vel ígrundaðar og að ekki sé gripið til úrræða sem t.d. hindra frumkvöðla- og nýsköpunarstarfsemi, hefta eða fæla erlenda fjárfesta frá því að koma með fjármagn inn í íslenskt atvinnulíf.

Tillögurnar í frumvarpinu eru þríþættar. Í fyrsta lagi er lagt til að sé maður dæmdur sekur um brot gegn 262. gr. almennra hegningarlaga megi í dómi í sakamáli banna honum að stofna félag með takmarkaðri ábyrgð félagsmanna, sitja í stjórn, starfa sem framkvæmdastjóri eða koma með öðrum hætti að stjórnun og fara með meiri hluta atkvæðisréttar í slíku félagi í allt að þrjú ár. Tillagan nær einungis til þeirra tilvika þar sem maður er dæmdur sekur um meiri háttar brot gegn ákvæðum laga um tekjuskatt, laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, laga um virðisaukaskatt, laga um bókhald og laga um ársreikninga. Með ákvæðinu er dómara veitt nokkurt svigrúm en í frumvarpinu er lagt til að bannið nái til þess að stofna félag með takmarkaðri ábyrgð félagsmanna, sitja í stjórn, starfa sem framkvæmdastjóri eða koma með öðrum hætti að stjórnun eða fara með meiri hluta atkvæðisréttar í slíku félagi. Dómari getur ákveðið að leggja á bann í allt að þrjú ár eða að verða ekki við kröfu um að leggja á bann. Hér er um að ræða nýja tegund viðurlaga sem er sama eðlis og gildandi ákvæði hegningarlaga um réttindasviptingu.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að við upptalningu í 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga verði bætt tilvísun til laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða þannig að lífeyrissjóðsiðgjöldum verði veitt sambærileg vernd og vörslusköttum.

Í öðru lagi er í frumvarpinu lagt til að hert verði á hæfisskilyrðum stjórnarmanna og framkvæmdastjóra hlutafélaga, einkahlutafélaga og sjálfseignarstofnana sem stunda atvinnurekstur. Í lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög og lögum um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur er kveðið á um að stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar skuli vera lögráða, fjár síns ráðandi og að þeir megi ekki á síðustu þremur árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld. Lagt er til í frumvarpinu að bætt verði við upptalninguna lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og að til skýringar verði bætt við að lög um opinber gjöld taki t.d. til laga um tekjuskatt, laga um virðisaukaskatt og laga um tryggingagjald. Missi stjórnarmenn og framkvæmdastjórar hlutafélaga, einkahlutafélaga og sjálfseignarstofnana sem stunda atvinnurekstur hæfi sem slíkir skulu þeir upplýsa hlutafélagaskrá eða sjálfseignarstofnanaskrá um það og hefur skráin heimild til að afskrá stjórnarmenn og framkvæmdastjóra sem missa hæfi sem slíkir.

Í frumvarpinu er lagt til að sömu hæfisskilyrði gildi fyrir prókúruhafa hlutafélaga, einkahlutafélaga og sjálfseignarstofnana sem stunda atvinnurekstur og gilda fyrir stjórnarmenn og framkvæmdastjóra slíkra félaga og stofnana. Markmiðið með breytingunni er að koma í veg fyrir að aðilar sem hlotið hafa dóm fyrir refsiverðan verknað í tengslum við atvinnurekstur geti annast allt það sem snertir atvinnurekstur félagsins eða stofnunar.

Í þriðja lagi er lagt til í frumvarpinu að heimild ráðherra samkvæmt lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög til að krefjast skipta á búi slíkra félaga í ákveðnum lögbundnum tilvikum verði færð til hlutafélagaskrár sem starfrækt er af ríkisskattstjóra. Þau lögbundnu tilvik sem hér um ræðir hvað hlutafélög varðar eru t.d. þegar hluthafar í slíku félagi verða færri en tveir og ekki er úr því bætt innan þriggja mánaða, einnig þegar slíta ber hlutafélagi samkvæmt lögum en hluthafafundur ákveður ekki félagsslit. Umræddri heimild sem nú er hjá ráðherra hefur ekki verið beitt en mikilvægt er að hægt sé að beita úrræðinu þegar atvik eru með þeim hætti sem greinir í lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög.

Allar þessar tillögur frumvarpsins eiga það sammerkt að með þeim er brugðist við tillögum ASÍ og SA frá júní 2017 um leiðir til að sporna við kennitöluflakki í atvinnurekstri. Frumvarpið hefur verið undirbúið í góðu samráði við þessa aðila. Við horfum með þessu frumvarpi til þess hvernig nágrannalönd okkar hafa tekið á kennitöluflakki í atvinnurekstri með markvissum hætti og getum lært af reynslu þeirra. Það fer ekki fram kerfisbundin söfnun upplýsinga um kennitöluflakk en hins vegar eru ákveðnar vísbendingar um það hér á landi. Þótt umfang kennitöluflakks hafi ekki verið mælt nákvæmlega má gera ráð fyrir því að það sé til staðar hér á landi og engin ástæða til að ætla að Ísland sé eina norræna ríkið sem ekki á við slíkan vanda að etja.

Eins og fyrr segir er hér um að ræða ákveðið fyrsta skref sem skiptir máli en þar með er þó ekki svo að kennitöluflakk í atvinnurekstri verði úr sögunni. Verkefnið hér er vandasamt og mikilvægt að gætt sé meðalhófs við leit að leiðum til að bregðast við vandanum. Mál þetta hefur verið í vinnslu í ráðuneytum frá því sumarið 2017 og hefur það kallað á vinnu sérfræðinga, bæði innan og utan ráðuneytanna.

Hér er um mikilvægt fyrsta skref að ræða í þá átt að hlúa að sanngjörnu viðskipta- og samkeppnisumhverfi hér á landi en kennitöluflakk í atvinnurekstri ógnar því. Kennitöluflakk er misnotkun á hlutafélagaforminu. Ég geri mér því vonir um að við getum hér sameinast og stigið skref til að stemma stigu við þessari misnotkun á hlutafélagaforminu og kennitöluflakki í atvinnurekstri. Eins og ég hef áður rakið er mjög mikilvægt að gæta meðalhófs við leit að leiðum til að bregðast við misnotkun á félagaformi. Aðgerðirnar sem ráðist er í verða að vera vel ígrundaðar og gæta verður þess að ekki sé gripið til úrræða sem t.d. hindra eðlilega frumkvöðla- og nýsköpunarstarfsemi, enn fremur að hafið sé yfir vafa að útfærsla um atvinnurekstrarbann sé í samræmi við stjórnarskrá en sérstaka umfjöllun um það er að finna í greinargerð með frumvarpinu.

Herra forseti. Ég tel að hér sé á ferðinni þýðingarmikið frumvarp sem miðar að því að stemma stigu við misnotkun á hlutafélagaforminu og kennitöluflakki í atvinnurekstri. Þetta er sem áður segir fyrsta skref og frekari tíðinda að vænta í haust eins og nánar er tilgreint í greinargerð með frumvarpinu.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar til umfjöllunar.