150. löggjafarþing — 93. fundur,  28. apr. 2020.

Matvælasjóður.

728. mál
[17:59]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Við Píratar greiðum atkvæði gegn því að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar. Málið hefur verið vel unnið. Það hefur verið bætt gríðarlega mikið í meðförum atvinnuveganefndar þar sem valdi er dreift og aðkoma að málinu er faglegri, eins og ég fór yfir í ræðu við 2. umr. Nú hefur vilji atvinnuveganefndar þingsins komið skýrt fram, að þessir peningar eiga að skila sér hratt og vel og eiga að gera það á mjög svipuðum hraða og ef þeir hefðu verið áfram í þeim sjóðum sem þeir eru í, Framleiðnisjóði landbúnaðarins og AVS. Í því tilliti að Framleiðnisjóðurinn mun úthluta áfram í október munum við fylgja því eftir að ráðuneytið fylgi vilja löggjafans hvað það varðar að þetta skili sér hratt og vel, jafn hratt og þótt þessi breyting hefði ekki orðið í efnahagslífinu. Það að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar mun bara tefja þessi mál og að þessir peningar komist til vinnu þar sem þeirra er þörf á þessum tíma.