Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[12:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst örstutt um tekjur og gjöld. Mér fannst ekki alveg skýrt hvort hv. þingmaður saknaði þess að sjá ekki fleiri tekjuráðstafanir eða meiri aðgerðir á gjaldahliðinni. En það eru tekjuráðstafanir. Sérstaklega er ég búinn að tiltaka hér ferðaþjónustu. Við gerum ráð fyrir auknum tekjum af fiskeldi, við gerum ráð fyrir auknum tekjum af útgerðinni, sjávarútvegi. Við gerum sömuleiðis ráð fyrir því að það dragi úr endurgreiðslum, bæði í virðisaukaskattskerfinu vegna nýbygginga íbúða og mögulega líka við breytingar á reglum um rannsóknir og þróun. Þannig að það eru ýmsar ráðstafanir þarna og við ætlum að fara í aðgerðir til að tryggja betri og hagkvæmari ríkisrekstur og erum að auka aðhaldið.

Varðandi vaxtagjöldin þá er það rétt hjá hv. þingmanni að sögulega hafa vaxtagjöldin í íslenskum ríkisfjármálum verið mun hærri en hjá öðrum þjóðum. Hvað kemur til? Í fyrsta lagi getum við velt fyrir okkur erlendu skuldahliðinni. Ég tel að Ísland njóti ekki sannmælis þegar kemur að lánshæfismati þjóðarinnar og þar er mjög auðvelt að bera sig saman við aðrar þjóðir sem eru með álíka skuldahlutföll, álíka stöðu gagnvart útlöndum, þ.e. eignastaða okkar gagnvart útlöndum er gjörbreytt og sterkari. Það er hægt að taka lífeyrissjóðskerfið inn og fleira. En því verður að halda til haga að í einni af síðustu stóru útgáfum okkar í útlöndum þá fengum við 0% vexti. Við fengum frábær lánskjör. Vaxtagjöldin eru fyrst og fremst jafn há og raun ber vitni vegna verðbólguvæntinga á Íslandi. Það leiðir til þess að þegar ríkissjóður gefur út skuldabréf í íslenskum krónum þá eru vextirnir háir vegna þess að væntingar í hagkerfinu eru um að verðbólga verði hærri en í viðmiðunarlöndunum til lengri tíma. Þetta er aðalorsökin fyrir því að vaxtagjöld ríkissjóðs eru hærri en hjá öðrum. Og þar fyrir utan þá erum við að sýna mun meira gagnsæi en aðrar þjóðir, það verður að hafa í huga þegar við berum okkur saman við aðra. Aðrir sýna ekki reiknaða vexti af vanfjármögnuðum lífeyrisskuldbindingum, svo dæmi sé tekið.