Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[12:51]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að koma inn á hlut Reykjavíkur. Það vill svo til, af því að við erum að ræða hér um húsnæðismálin og almenna íbúðakerfið og rammasamkomulag ríkis og sveitarfélaga, að Reykjavíkurborg er eina sveitarfélagið á landinu sem hefur undirritað samning við ríkið um aukið framboð á íbúðum á næstu árum og aukið framboð af í almenna íbúðakerfinu. Ég er ekki einu sinni viss um að þær fjárveitingar sem gert er ráð fyrir í þessari blessuðu fjármálaáætlun dugi fyrir uppbyggingunni sem er áformuð í Reykjavík. Annars kemur hv. þingmaður inn á séreignarstefnu í húsnæðismálum og má ég þá minna Sjálfstæðismenn á að vaxtabætur hafa löngum verið eitt af bitbeinum þessarar séreignarstefnu og einmitt tryggt að fólk lendi ekki í vanda eftir að það hefur keypt húsnæði. Hvers konar þróun höfum við séð hér á vakt síðustu ríkisstjórnar og í tíu ára stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins í fjármálaráðuneytinu? Það er að drabbast niður. Þetta kerfi hefur drabbast niður. Vaxtabótakerfið er varla neitt neitt lengur. Blessunarlega samþykktu Sjálfstæðismenn tillögu okkar í Samfylkingunni um hækkun á eignarskerðingarmörkum vaxtabóta (Forseti hringir.) fyrir jól. Nú legg ég til að við tökum okkur saman um að hækka líka hámarkið á vaxtabótum til þess að verja heimilin sem finna hvað mest fyrir hækkandi stýrivöxtum.