Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[13:01]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóhanni Páli Jóhannssyni kærlega fyrir sína ræðu. Það er auðvitað margt sem kemur okkur hægri mönnum spánskt fyrir sjónir í hans málflutningi en er samt ekkert nýtt. Maður hefur heyrt þetta allt áður og þetta eru kunnugleg stef. Ég get aftur á móti ekki látið það hjá líða þegar hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson fullyrðir hér að útgjöld til heilbrigðismála séu langt á eftir norrænu ríkjunum. Það er einfaldlega rangt. Hann fullyrðir það í andsvari rétt áðan. Ef við tökum tillit til aldurssamsetningar þjóðarinnar þá er það svo að framlög til heilbrigðismála eru með hæsta móti hér á Íslandi, miðað við önnur Norðurlönd, vegna þess að við erum svo ung þjóð. Ég vil gjarnan fá að heyra þingmanninn ræða það betur.