Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[13:49]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég skal vera aðeins nákvæmari. Það var ekki alveg nákvæmt hjá mér að segja bara að það væri skortur á aðhaldi. Ég reyndi að útskýra það aðeins en kannski komst það ekki nægilega vel til skila. Í samanburði við 1% stýrivaxtahækkun, sem nú hefur raungerst, þá er í raun ekki neitt sem væri hægt að kalla aðhald í þessari fjármálaáætlun, bara í svona stærðarsamanburðinum, hversu mikil áhrif 1% stýrivaxtaákvörðun mun hafa á hagkerfið bara í milljörðum talið á móti því hvaða áhrif fjármálaáætlunin mun hafa, plús það sem ég benti á, í andsvörum við fjármálaráðherra, að það virðist vera eins og ekki sé gerð nægilega vel grein fyrir 80 milljörðum af opinberum fjárfestingum í þjóðhagsspánni, sem stefnir niður að 2,5% verðbólgu. Ef við bætum 80 milljörðum af opinberu fjárfestingunni ofan á það, hvar endum við þá í verðbólgunni? Það er ákveðin þensluaðgerð, myndi maður halda, nema verið sé að mínusa einhverjar aðrar opinberar framkvæmdir á móti, þ.e. framkvæmdir sveitarfélaga, hjúkrunarheimila og þess háttar sem eru ekki taldar þar til. Ég velti fyrir mér: Hvernig á að útskýra það?