Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[16:02]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hennar andsvar og ég þakka samstarfið við hana á undanförnum árum. Já, ég hef setið í fjárlaganefnd öll þau tíu ár sem ég hef setið á þingi. Það er líka gott að geta sagt frá því að í meðförum fjárlaganefndar hafa útgjöld stundum verið skorin niður. Það hefur gerst oftar en einu sinni, á milli 1. og 2. umr. um fjárlagafrumvarpið, að útgjöld hafa verið skorin niður og meiri afgangi jafnvel skilað á þeim tíma. Það gerðum við síðastliðið vor, við hertum að í fjármálaáætluninni.

Nú mun ég ekki fylgja vinnunni til enda en hv. þingmaður biður mig um að setja á mig spámannshattinn. Mín eindregna spá eða ósk er að við bætum ekki í, í það minnsta ekki á fyrstu árum þessarar áætlunar. Það væri fullkomlega óábyrgt að fara að bæta í útgjöld, í það minnsta fyrstu þrjú árin.

Ég vísaði aðeins til þess í ræðu minni hér áðan, varðandi fjárlagagerðina í haust, og það hefur tíu ára reynslan kennt mér, að þær spár sem liggja til grundvallar endurspegla ekki nægjanlega vel þann raunveruleika sem við síðan horfumst í augu við. Okkur hættir til að vanmeta vöxt í miklum vexti og okkur hættir líka til að vanmeta samdráttinn. Þegar það er samdráttarskeið eins og við lentum í 2019 þá notum við í góðri trú þær spár og þau gögn sem liggja fyrir, en kreppan eða samdrátturinn er oftar en ekki harðari. Þess vegna gátum við, við afgreiðslu fjárlaga fyrir nokkrum mánuðum, vitað með sæmilegri vissu að útkoman yrði betri og við höfum síðan farið yfir það í hv. fjárlaganefnd undanfarnar vikur, um framkvæmd fjárlaga. Við sjáum jákvæð teikn um það. Ef okkur tekst að halda markmiðum og útgjöldum fjárlaga innan þeirra heimilda sem eru mun útkoma ríkissjóðs á þessu ári verða mun betri en gildandi fjárlög segja til um. Það er fyrst og fremst vegna þess að við höfum ekki alveg nógu góð mælitæki til að styðjast við.