Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[16:06]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Stundum er sagt að þingið sé sjálfstætt vandamál í efnahagsstjórn á Íslandi. Það heyrðist sannarlega eftir samþykkt fjárlaga síðasta árs og ég tók eftir þeirri umræðu og tók það til mín. Vandinn er bara þessi sem ég var að lýsa áðan og við sjáum það núna eftir fyrstu þrjá mánuði ársins. Við fengum nýja þjóðhagsspá hér á nýju ári sem var mun bjartari en þegar við lokuðum fjárlögum. Vandinn er kannski sá að við erum að horfa of mikið á þessar spár. Nú ætla ég að vera alveg ósammála því sem ég sagði í fyrra andsvari. Ég myndi segja, eftir tíu ára reynslu, að við ættum t.d. ekki að nota uppfærða þjóðhagsspá þegar við göngum frá fjárlögum. Við eigum að samþykkja fjárlögin á því verðlagi sem þau eru lögð fram á. Ég held að það sé alveg jafn gott og hitt en myndi auka til muna þann aga sem þingið hefði til að ganga frá sínum samþykktum og loka fjárlögum á hverju ári, þannig að við séum ekki að færa inn bjartari þjóðhagsspá og lenda í freistnivanda með aukin útgjöld. Það getur líka orðið vandamál þegar kreppir að, en það verðum við bara að þola og halda okkur við eitt verðlag hverju sinni.