154. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2024.

Yfirlýsing forsætisráðherra og umræður um hana.

[15:16]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Hér viðurkennir hæstv. forsætisráðherra að það sé sem sagt búið að margtelja suma af þeim milljörðum sem hér voru lagðir fram. En gott og vel, almenningur vill hins vegar fá að heyra hvaðan þetta fjármagn og þessir peningar, mögulega 15 milljarðar á ári, verða sóttir. Þeir verða ekki sóttir með dútli hér og þar af því að svona áhrif og svona upphæðir hafa auðvitað áhrif á fjárfestingarsvigrúm ríkissjóðs. Við vitum líka að raunverulegur sparnaður í rekstri ríkissjóðs mun krefjast fjárfestingar í grunninnviðum fyrst og fremst. Ég kem hér upp til að spyrja vegna þess að fyrrum innviðaráðherra og núverandi fjármálaráðherra boðaði fyrir skömmu frestun framkvæmda vegna stöðunnar en kallaði það ekki niðurskurð. Þetta er frestun ofan í framkvæmdastopp þar sem engin jarðgöng eru í gangi og fjárfesting í vegakerfinu er langt undir sögulegu meðaltali. Þessi verðmætasköpun sem oft heyrist frá Sjálfstæðisflokknum að eigi að standa undir öllu sem hér á að vaxa stendur og fellur með því að samgönguinnviðum sé haldið við og lífæðir landsins virki.

Þess vegna spyr ég: Tekur hæstv. forsætisráðherra undir (Forseti hringir.) með nýjum fjármálaráðherra að rétt sé að fresta framkvæmdum til að loka (Forseti hringir.) stóra gatinu?