154. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2024.

Yfirlýsing forsætisráðherra og umræður um hana.

[15:18]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að vísa hér í álit umboðsmanns Alþingis frá 5. október síðastliðnum hvað lýtur að embættisverkum þáverandi fjármálaráðherra, hæstv. Bjarna Benediktssonar. Þar segir orðrétt:

„Það er niðurstaða mín að við ákvörðun sína 22. mars 2022, um sölu á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka hf., hafi fjármála- og efnahagsráðherra brostið hæfi samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 3. mgr. 1. gr. sömu laga, og þá í ljósi þess að meðal kaupenda var einkahlutafélag undir fyrirsvari og í eigu föður hans.“

Ég velti fyrir mér: Í kjölfarið kemur hæstv. ráðherra og segir af sér og ætlar að axla ábyrgð og fer og gerir sjálfan sig að utanríkisráðherra. Nú, skömmu síðar, hálfu ári síðar, er hæstv. ráðherra orðinn æðstur allra ráðherra, kominn yfir stjórnskipan landsins, höfuð íslensku ríkisstjórnarinnar. Ég spyr: (Forseti hringir.) Er þetta til að auka traust þjóðarinnar á okkar embættisverkum? (Forseti hringir.) Er það í rauninni til þess að tryggja, hvað á ég að segja, pólitískan stöðugleika að ganga hér um (Forseti hringir.) án þess að axla ábyrgð á í rauninni, í þessu tilviki, broti á stjórnsýslulögum?

(Forseti (BÁ): Forseti minnir á að ræðutími er 1 mínúta í báðum andsvörum og báðum svörum.)