154. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2024.

Yfirlýsing forsætisráðherra og umræður um hana.

[15:34]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það var auðvitað lengi vel þannig að það var einn maður í fjármálaráðuneytinu í mjög langan tíma og það er kannski stöðugleiki sem hv. þingmaður saknar. Ég held að þetta sé orðið algjörlega fullkomið aukaatriði þó að það hafi verið skipt oftar en einu sinni um ráðherra í fjármálaráðuneytinu. Það er algjört aukaatriði. Hins vegar er það algjört aðalatriði að verðbólga er tekin að lækka. Við erum með nýja samninga á vinnumarkaði, kjarasamninga til fjögurra ára sem þykja ábyrgir. Við erum sömuleiðis með sterkan stuðning ríkisstjórnarinnar, fjármagnaðan stuðning við þá kjarasamninga. Og þetta tvennt ásamt öðru sem er að gerast í hagkerfinu er grundvöllur þess að almennt er gert ráð fyrir því að á þessu ári fari verðbólgan niður undir í kringum 4%. Það væri mikill árangur á skömmum tíma enda er margt sem bendir til þess að raunvextir á Íslandi hafi ekki í langa tíð verið hærri en einmitt nú. Þannig að peningastefnuákvarðanir eru að bíta mjög hart (Forseti hringir.) og við ætlum að ná þessum árangri sem spáð er og er í kortunum fyrir þessi sömu heimili og fyrirtæki sem hv. þingmaður minnist á.