154. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2024.

Yfirlýsing forsætisráðherra og umræður um hana.

[17:11]
Horfa

matvælaráðherra (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er mikil ábyrgð að taka við embætti ráðherra. Það hyggst ég gera af kostgæfni á sama tíma og ég hlakka til að takast á við þau verkefni sem fram undan eru í matvælaráðuneytinu sem eru í senn bæði krefjandi og spennandi. Ég vil byrja á því að segja að mörg góð verk hafa verið unnin undir forystu hæstv. innviðaráðherra Svandísar Svavarsdóttur síðustu ár í ráðuneytinu og ég þakka henni fyrir það. Í ljósi þess hve langt er liðið á þetta kjörtímabil mun ég forgangsraða þeim verkefnum sem eru brýnust og eru komin á dagskrá. Þar ber hæst nýja löggjöf um lagareldi eins og hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra fór yfir í sinni ræðu. Laxeldi hefur vaxið í íslensku atvinnulífi og er afar afkastamikil grein þar sem skiptir miklu máli að taka tillit til umhverfis og aðstæðna hverju sinni. Því er mikilvægt að treysta löggjöfina í lagareldi öllum til heilla og ég treysti því að hér verði samvinnan góð á þinginu í þessum efnum sem öðrum.

Sjávarútvegur hefur um langa tíð verið burðargrein í íslensku atvinnulífi og er samofinn atvinnusögu Íslendinga og þjóðarsál. Við höfum þá sérstöðu að nytjastofnar við Ísland eru í góðu ásigkomulagi. Veiðistjórn síðustu áratuga hefur skilað þeirri sérstöðu og er nýting sjávarafurða hér við strendur að miklu leyti vottuð af alþjóðlegum aðilum. Það er af sem áður var þegar síldin hvarf og ofnýting var á nytjastofnum sjávar. Sjálfbær nýting sameiginlegra auðlinda er og verður grundvöllur áframhaldandi nýtingar á sama tíma og hún eykur verðmætasköpun þess afla sem nú er veiddur. Þar hefur íslenskur sjávarútvegur staðið sig með prýði. Því sem áður var hent fyrir húshorn eða gefið múkkanum nýtist nú við gerð smyrsla, bætiefna, lyfja og læknisvöru. Útflutningur á þekkingu og tækni í sjávarútvegi er að verða hagstærð sem skiptir verulegu máli. Þarna fer saman hugvit, þekking og rannsóknir sem eru alltumlykjandi í þessari framþróun. Hafrannsóknir hafa byggt upp þann þekkingargrunn sem greinin stendur á og þær halda áfram að tryggja þá sérstöðu sem ég nefndi hér áður. Sjálfbærni er lykilþáttur í því hvernig við tökumst á við áskoranir framtíðarinnar, loftslagsbreytingar af mannavöldum og hnignun lífbreytileika.

Virðulegi forseti. Með vorinu hefjast svo strandveiðar. Ég tel mikilvægt að huga að því hvernig þær geta farið fram án þess að skerða möguleika þeirra sem þær stunda út frá búsetu. Félagslegar veiðar skipta sköpum fyrir byggðafestu og byggðajafnrétti en þar eru þó áskoranir eins og við þekkjum og mikilvægt að finna þeim farsælan farveg. Ég tel að aukið gagnsæi í sjávarútvegi sé öllum til heilla. Traust almennings til þjóðhagslegra mikilvægra atvinnugreina er mikilvægur þáttur í þeim efnum. Aukið gagnsæi vegur upp á móti tortryggni og eykur traust í sjávarútvegi. Það er því til mikils að vinna.

Virðulegi forseti. Landbúnaður er líka stór hluti af verkefnum ráðuneytisins. Ég mun fylgja eftir átaki í uppbyggingu kornræktar og lífrænnar framleiðslu og næstu skref í uppbyggingu innviða í kornrækt er að auglýsa eftir umsóknum er varða fjárhagsstuðning. Þannig byggjum við upp mikilvæga innviði og leggjum hornsteina nýrrar og öflugrar búgreinar. Þá eru rannsóknir á verndandi arfgerð gegn riðu mikilvægar. Eins og mörg önnur bind ég miklar vonir við að sú vegferð verði okkar helsta vopn í þeirri baráttu á komandi árum.

Umfram allt tel ég mikilvægt að við stöndum með íslenskum landbúnaði. Það er mikilvægur liður í matvælaöryggi þjóðarinnar. Síðustu ár höfum við séð átök víða um heim hafa áhrif á aðfangakeðjur í landbúnaði. Á sama tíma höfum við líka séð nýja sprota innan greinarinnar byrja að taka á sig mynd, vaxa og dafna. Hér höfum við mikið landnæði, við höfum vatn og orku til að framleiða meira af þeim matvælum sem við þörfnumst. Landnýting og loftslagsmál vega þungt í landbúnaði framtíðarinnar. Það verður ekki litið fram hjá ákalli alþjóðasamfélagsins í þeim efnum. Varða á þeirri leið er að auka framleiðni í landbúnaði en sömuleiðis að græða vistfræðilega illa farið land nýju lífi. Dæmi um þetta er Gunnarsholt á Rangárvöllum þar sem í dag eru blómlegir kornakrar sem framleiða innlent fóður sem nýtt er í innlenda kjötframleiðslu en áður voru þar örfoka melar. Annar liður í þessu er endurheimt vistkerfa á borð við votlendi og birkiskóga, sem geta jú einnig nýst fólki til yndisauka og við útivist.

Virðulegur forseti. Innan vébanda ráðuneytisins eru veigamiklir málaflokkar, bæði þeir sem varða stórar atvinnugreinar og útflutningstekjur þjóðarinnar en sömuleiðis loftslagsmál og matvælaöryggi. Það er því af nógu að taka á næstunni og margt sem þarf að setja sig betur inn í. Það mun ég gera á komandi vikum og mánuðum og ég fer því full bjartsýni inn í þetta verkefni.