132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Bílaleigur.

379. mál
[14:41]
Hlusta

Frsm. samgn. (Guðjón Hjörleifsson) (S):

Frú forseti. Við tökum til 2. umr. frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 64/2000, um bílaleigur með síðari breytingum.

Með frumvarpinu er lagt til að leyfisveitingar til að reka bílaleigur færist frá samgönguráðuneyti til Vegagerðarinnar. Þannig er gert ráð fyrir að þeir sem vilja reka bílaleigur hafi starfsleyfi frá Vegagerðinni en ekki samgönguráðuneytinu. Þetta er í samræmi við stjórnsýslulög sem kveða á um þann grundvallarrétt borgaranna að þeir geti skotið stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds. Með því að veita undirstofnunum ráðuneyta heimild til að kveða á um rétt og skyldur manna, svo og um veitingu leyfa, eftirlit með því að skilyrðum fyrir þeim sé fullnægt o.s.frv. verður þessu við komið.

Þá er lagt til að gjald fyrir útgáfu starfsleyfis hækki úr 10 þús. kr. í 25 þús. kr. Vegagerðin hefur reiknað út kostnað vegna útgáfu starfsleyfa og annarrar umsýslu og er því lagt til að gjaldið hækki þannig að það geti staðið undir þeim kostnaði. Starfsleyfið er gefið út til fimm ára þannig að um er að ræða 5 þúsund kr. á ári.

Aðrar breytingar á lögunum sem lagðar eru til í frumvarpinu eru að kveðið er á um að bílaleiga skuli rekin á fastri starfsstöð sem opin skuli almenningi á tilgreindum tíma. Þá er einnig lögð sú skylda á bílaleigur að þær upplýsi opnunartímann á skýran og ótvíræðan hátt og standi við hann. Áréttað er að bílaleigu er bannað að leigja út ökutæki sem ekki eru sérstaklega skráð hjá Umferðarstofu sem ökutæki sem leigt er í atvinnuskyni án ökumanns. Kveðið er á um heimild fyrir bílaleigur til að leigja til lengri tíma ökutæki sem ekki hefur notið lægri vörugjalda og ökutæki þar sem 15 mánuðir eru liðnir frá nýskráningu ökutækis sem notið hefur lægri vörugjalda, samanber lög um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993.

Þetta er í samræmi við framkvæmd núgildandi laga. Þau hafa verið túlkuð þannig að bílaleigum sé heimilt að leigja ökutæki sem ekki hafa notið lægri vörugjalda og ökutæki þar sem 15 mánuðir eru liðnir frá nýskráningu ökutækis, sem notið hefur lægri vörugjalda til lengri tíma en þriggja vikna. Talið er að þessi heimild raski ekki samkeppnisstöðu milli bílaleigna annars vegar og kaupleigu eða fjármögnunarfyrirtækja hins vegar. Refsiákvæði laganna er gert skýrara og tekið fram hvaða ákvæði þeirra geti falið í sér refsiverð brot. Bætt er inn ákvæði sem kveður á um að Vegagerðin hafi eftirlit með framkvæmd laganna og er bílaleigum skylt að veita henni upplýsingar er varða starfsleyfi þeirra.

Frú forseti. Alþingi samþykkti í maí árið 2000 lög um bílaleigur, nr. 64/2000. Með lögunum var samgönguráðuneytinu falið að fara með málefni bílaleigna, útgáfu leyfa, eftirlit og annað sem tilheyrði því að halda utan um málaflokkinn. Í bílaleigulögunum voru bráðabirgðaákvæði sem kváðu á um að allar starfandi bílaleigur fyrir gildistöku þeirra skyldu hafa aflað sér leyfis fyrir 1. september 2000. Er fresturinn rann út höfðu verið gefin út 21 leyfi. Þann 19. ágúst 2005 höfðu 56 bílaleigur starfsleyfi frá ráðuneytinu. Fjöldi starfsleyfa hefur verið með þessum hætti frá því að lögin tóku gildi.

Ef við skoðum aðeins þróunina árið 2000 var fjöldi bifreiða 2.321 og veltan 1,5 milljarðar og árið 2004 3.915 bifreiðar og 2,4 milljarðar í veltu. Þessar upplýsingar koma frá Samtökum um samgöngu- og ferðaþjónustu, varðandi fjölda bíla og veltutölur frá Hagstofunni.

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breyting á lögum um bílaleigur, nr. 64/2000, með síðari breytingum, frá samgöngunefnd.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur, Sigurberg Björnsson og Jóhann Guðmundsson frá samgönguráðuneyti.

Nefndinni bárust skriflegar umsagnir um málið frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Umferðarstofu, Vegagerðinni og Bílgreinasambandinu.

Með frumvarpinu er lagt til að færa málefni bílaleigna og veitingu leyfa til að reka bílaleigur frá samgönguráðuneyti til Vegagerðarinnar. Þannig er gert ráð fyrir að þeir sem vilji reka bílaleigur hafi starfsleyfi frá Vegagerðinni en ekki samgönguráðuneytinu. Það samræmist meginreglum góðrar stjórnsýslu um rétt borgaranna til að skjóta stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds. Auk þess fer Vegagerðin nú þegar með leyfisveitingar í skyldum málaflokkum, svo sem varðandi fólks- og farmflutninga á landi og leigubifreiðar.

Aðrar breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru m.a. að kveðið er á um að bílaleiga skuli rekin á fastri starfsstöð sem opin skal almenningi á tilgreindum tíma. Þá er áréttað að bílaleigu er bannað að leigja út ökutæki sem ekki er sérstaklega skráð hjá Umferðarstofu sem ökutæki sem leigt er í atvinnuskyni án ökumanns.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali.

Jón Bjarnason sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu með fyrirvara.

Kristján L. Möller var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Auk mín rita undir álitið hv. þm. Pétur H. Blöndal, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Ísólfur Gylfi Pálmason, Sigurrós Þorgrímsdóttir, Guðjón A. Kristjánsson, Kristinn H. Gunnarsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir

Frú forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögum við frumvarp. til laga um breytingu á lögum um bílaleigur, nr. 64/2000, með síðari breytingum.

„1. Við 2. gr. Í stað orðsins „Opnunartími“ í e-lið komi: Afgreiðslutími.

2. Við 8. gr. Greinin orðist svo: Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Frú forseti. Ég legg til að að lokinni 2. umr. verði frumvarpinu vísað til 3. umr.