135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

staðfest samvist.

532. mál
[21:45]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Ég vil bara ítreka hvert efni þessa frumvarps er, virðulegi forseti. Ég held að þetta sjónarmið um uppeldi barna komi reyndar þessu tiltekna þingmáli lítt við vegna þess að allir samkynhneigðir geta núna að gildandi lögum fengið sína samvist staðfesta og ættleitt börn og geta gert það með því að leita til sýslumanns eða fulltrúa þeirra. Ef fólk vill hins vegar frekar af trúarlegum ástæðum að heit þeirra sé staðfest frammi fyrir presti eða forstöðumanni trúfélags viðkomandi þá er það það sem þetta frumvarp og þessi væntanlegu lög heimila að því gefnu að trúarsannfæring viðkomandi prests eða forstöðumanns standi því ekki gegn því þá yrði að leita til einhvers annars í sömu stöðu. Allir sem vilja staðfesta samvist sína í dag frammi fyrir sýslumanni eða fulltrúa geta gert það og geta ættleitt börn á grundvelli gildandi lagaákvæða. En þeim sem vilja frekar gera það frammi fyrir kirkjunnar mönnum verður það núna frjálst að því gefnu að viðkomandi prestar eða forstöðumenn hafi þá trúarsannfæringu sem þarf til. (Gripið fram í.)