139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

kjarasamningar, atvinnumál, efnahagsmál.

[14:28]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég fagna því alveg sérstaklega að við erum öll sem eitt, sem höfum tekið til máls undir þessum lið í dag, að ræða um það sem skiptir mestu máli í samfélagi okkar í dag og það eru atvinnumálin.

Hv. þm. Lilja Mósesdóttir talaði um að ójöfnuður í samfélaginu ykist með of miklu launabili. Ég vil segja það við hv. þingmann að ójöfnuður eykst með atvinnuleysi og verkefni okkar á að vera að útrýma því.

Ég get líka tekið undir með hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni að við eigum ekki að einblína á einhverja eina atvinnutegund. Okkur sjálfstæðismönnum er alltaf legið á hálsi fyrir að kunna ekki neitt nema tala um álver og stóriðju. Ég mótmæli því hér eftir sem hingað til vegna þess að hvað höfum við, og nú er nærtækt fyrir mig að taka dæmi um það svæði sem ég kem frá, Suðurnesin, hvað höfum við Suðurnesjamenn einmitt verið að gera? Við höfum verið að tala um endalaus verkefni í öllum mögulegum geirum. Við höfum talað um gagnaver, við höfum talað um heilsutengda ferðaþjónustu, við höfum talað um flugstarfsemi. Allt þetta hefur mætt andstöðu frá þessari ríkisstjórn sem gerir ekkert annað en að tefja fyrir og þvælast fyrir þrátt fyrir að einstaka og stundum hjáróma rödd einhvers sem ber í borðið segi að þetta gangi ekki lengur svona.

Nú hefur hv. þm. Helgi Hjörvar bæst í þennan hóp og ég vil taka undir áskoranir þeirra sem hér hafa talað til þeirra sem styðja þessa ríkisstjórn en styðja það að við breytum hér um stefnu í atvinnumálum, að gera nú eitthvað í því annað en bara að tala. Það var móðgun við hv. þingheim í gær að heyra hæstv. forsætisráðherra tala um atvinnusköpun, 2.200 störf. Þetta er svo endurnýtt að Sorpa ætti að fara að fá þetta til sín. Við höfum heyrt þessar tölur hér (Forseti hringir.) endalaust, fyrst rétt eftir að núverandi ríkisstjórn tók við völdum, þá var talað um að skapa ætti 6.000 störf. (Forseti hringir.) Þau hafa ekki enn verið sköpuð. Það hefur ekkert gerst nema kannski göngustígaverkefnið Græni trefillinn, sem góðra gjalda vert, (Forseti hringir.) en hugsum aðeins stærra.