139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

menntun og atvinnusköpun ungs fólks.

449. mál
[18:30]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Skúla Helgasyni fyrir svarið. Ég held að það sé rétt sem hann bendir á að það sé mjög mikilvægt að einhver þröskuldur sé á þessari vegferð þannig að menn þurfi að vera búnir að sýna árangur í náminu til að geta hugsanlega fengið þær ívilnanir sem um ræðir. Við hv. þingmaður erum sammála um að við verðum að stíga dálítið afgerandi skref til að stýra nemendum inn í þetta nám, í iðn- og tæknimenntun í samfélaginu. Það er einmitt mjög athyglisvert sem kemur fram í þessari þingsályktunartillögu um mat þeirra fyrirtækja sem starfa í þessum geira, ef ég má orða það með þeim hætti, að það vantar og mun vanta á næstu árum mjög margt fólk inn í þessar greinar. Það hefur líka komið fram í fjölmiðlum á undanförnum vikum, mánuðum og árum að nú þegar skortir starfsfólk. Það hefur jafnvel staðið sumum fyrirtækjum fyrir þrifum að geta ekki vaxið enn frekar en þau hafa gert.

Ég vona að hv. menntamálanefnd afgreiði þetta mál fljótlega því að til stendur að menn skili af sér í júlí 2011. Þá á starfshópurinn að skila þannig að ég vænti þess að hv. menntamálanefnd afgreiði þetta snöggt og vel svo hægt sé að klára þetta mál.