149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

höfundalög.

797. mál
[15:06]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör. Ég tek heils hugar undir með henni um mikilvægi þess að Íslendingar búsettir erlendis hafi gott aðgengi að efni RÚV og sérstaklega er ég að velta fyrir mér íslenskukunnáttu barna þar sem á netinu flæðir nú mjög mikið af efni en yfirleitt er það á ensku og erfiðara er að nálgast íslenskt efni.

Mig langar líka að taka fram að ég held að einmitt í þessum lögum eins og mörgum öðrum sem við tökum upp frá Brussel — ég er ekkert alltaf neitt ofboðslega hrifin af því, virðulegur forseti — snúist málið um neytendavernd. Þetta gerir það einmitt. Ég tel að það sé mikill hagur í þessu fólginn fyrir íslenska neytendur, hvort sem um er að ræða íslenskar efnisveitur eins og RÚV, en ekki síður áskrift að Netflix eða öðru og geta notað það hvar sem er í heiminum.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég held að það verði mjög spennandi að fylgjast með umræðunni um höfundaréttarlögin sem samþykkt voru í Evrópuþinginu, með hvaða hætti við tökum þau upp í EES-samninginn og innleiðum. Það sem ég velti kannski helst fyrir mér er hvort það muni hafa einhver áhrif á ýmis mál sem við erum með til umræðu í þinginu, ég er sérstaklega að vísa í mál sem eru í efnahags- og viðskiptanefnd varðandi rafræn viðskipti og rétthafasamtök hafa gert athugasemd við, m.a. á þeim forsendum að það séu að verða breytingar á höfundaréttarlögunum í Evrópu. Þess vegna er gott að við fylgjumst mjög vel með.

Varðandi Evrópumálin skiptir hagsmunagæsla okkar einmitt á fyrri stigum miklu máli. Í ljósi þess að við höfum eytt miklum tíma í að ræða orkupakka þrjú og lög sem samþykkt voru úti í Brussel 2009 er gott að við færum okkur aðeins nær í tíma þegar fjallað er um lagabreytingar í Evrópu sem við munum kannski taka upp.