149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

stjórnsýsla búvörumála.

781. mál
[19:26]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 1241, mál 781. Um er að ræða frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum á sviði landbúnaðar um stjórnsýslu búvörumála og varðar flutning málefna búnaðarstofu. Með frumvarpinu er lagt til að ákveðin verkefni er tengjast stjórn búvöruframleiðslu og framkvæmd búvörusamninga færist frá búnaðarstofu Matvælastofnunar til ráðuneytisins. Megintilgangur þess er að efla stjórnsýslu og stefnumótun á sviði landbúnaðar og matvælamála. Þá munu breytingarnar draga úr tvíverknaði sem sprottið hefur af framkvæmd greiðslna til bænda, gerð samninga og umfjöllun álitaefna á tveimur stöðum. Umrædd verkefni eru þegar skýrt aðgreind frá öðrum verkefnum Matvælastofnunar og má segja að þau falli almennt ekki sérlega vel að kjarnaverkefnum stofnunarinnar sem eru matvælaeftirlit og eftirlit með heilbrigði og aðbúnaði dýra.

Líkt og áður segir varða þau verkefni sem lagt er til að flutt verði til ráðuneytisins stjórn búvöruframleiðslu í landinu og framkvæmd búvörusamninganna. Til þessa telst m.a. skráning greiðslumarks lögbýla, framkvæmd beingreiðslna, söfnun hagtalna um búvöruframleiðslu og eftirlit með ásetningu búfjár. Fjallað er um verkefni þessi í lögum um búfjárhald, búnaðarlögum, búvörulögum og lögum um Matvælastofnun. Með frumvarpi þessu eru því lagðar til breytingar á framangreindum lagabálkum til að unnt sé að flytja umrædd verkefni til ráðuneytisins. Þá er gert ráð fyrir, verði frumvarpið að lögum, að starfsmenn búnaðarstofu Matvælastofnunar sem sinna þessum verkefnum verði starfsmenn ráðuneytisins.

Hvað varðar áhrif á fjárhag ríkissjóðs er rétt að líta til þess að verkefni búnaðarstofu eru verkefni sem flutt voru frá Bændasamtökum Íslands til Matvælastofnunar árið 2016. Umfang þeirra verkefna og fjármögnun liggur því nokkuð vel fyrir og verði frumvarpið að lögum mun það ekki hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs. Hins vegar mun útgjaldarammi Matvælastofnunar á málefnasviði 12 lækka um 114,5 millj. kr. og á móti mun útgjaldarammi ráðuneytisins hækka um sömu fjárhæð.

Virðulegi forseti. Með því að koma þessum stjórnsýsluverkefnum á einn stað undir einni yfirstjórn er horft til þess að auka möguleika á forgangsröðun verkefna og þróa stjórnsýsluna með skilvirkari hætti.

Ég hef nú gert grein fyrir helstu atriðum frumvarpsins og að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.