150. löggjafarþing — 94. fundur,  28. apr. 2020.

sjúkratryggingar.

701. mál
[18:29]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Í fyrsta lagi er okkur nokkur vandi á höndum þegar um er að ræða forgangsröðun og frávik frá þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar sem var núna skorin umtalsvert niður í ljósi aðstæðna og þeirra takmarkana sem þingstörfin hafa búið við og þeirra mikilvægu verkefna sem snúast um faraldurinn. Ég taldi að þarna væri um að ræða mál sem lýtur að auknu öryggi sjúklinga og skýrari heimildum sjúkratryggingastofnunarinnar til að halda utan um hagsmuni almennings í samskiptum við þá sem þjónustuna veita í gegnum samninga þegar samningar eru ekki fyrir hendi. Á vegum sjúkratryggingastofnunarinnar eru kannski yfir 200 samningar í gildi á hverjum tíma og þar af má kannski segja að 10% séu í einhvers konar samningaferli. Á meðan samningar eru ekki í gildi hefur stofnunin minni heimildir að því er varðar það að kalla eftir upplýsingum. Ég taldi í ljósi heilbrigðisstefnu o.s.frv. að þarna væri ekki um að ræða slíkt álitamál. Það var mitt mat að þetta væri ekki ágreiningsmál en að sjálfsögðu fer hv. velferðarnefnd í gegnum það eins og vera ber. Þetta er mitt fyrsta svar.

Í öðru lagi varðandi síðan sálfræðingamál Viðreisnar sem er í hv. velferðarnefnd er ég sammála hv. þingmanni um að þar er um að ræða alveg gríðarlega mikilvægan punkt sem lýtur að því að semja megi um þjónustu sálfræðinga og að það falli undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga. Við höfum bætt þjónustu sálfræðinga umtalsvert inn í heilsugæsluna og síðan inn í geðteymin. Mér finnst afar mikilvægt ef og þá þegar slíkt mál yrði afgreitt að við sæjum (Forseti hringir.) fyrir okkur með einhverju móti að slík breyting yrði fjármögnuð til lengri framtíðar, það væri ekki svo að við myndum gera breytingu af þessu tagi öðruvísi en að fyrir lægi að við hefðum einhver áform um að þau gætu síðan farið að hafa áhrif.