Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

stefnumótun í fiskeldi.

[15:20]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur haft til umfjöllunar skýrslu Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi, lagaframkvæmd, stjórnsýslu og eftirlit. Þar eru gerðar tugir athugasemda við framkvæmd laga um fiskeldi, brotakennda stjórnsýslu og tilfinnanlegan skort á eftirliti. Í umfjöllun nefndarinnar hafa einnig komið fram fjölmargar ábendingar frá hagaðilum sem rata munu í álit nefndarinnar áður en langt um líður. Enginn vafi leikur á því að úttekt Ríkisendurskoðunar leggur góðan grunn að rækilegri endurskoðun lagarammans, regluverksins og stjórnsýslunnar í kringum sjókvíaeldi við strendur Íslands.

Eins og kunnugt er hefur hæstv. matvælaráðherra einnig fengið ráðgjafarfyrirtækið Boston Consulting Group til að vinna skýrslu um stöðu og framtíð lagareldis á Íslandi. Landvernd hefur sett fram rökstudda gagnrýni á innihald og útleggingar þeirrar skýrslu og kynnt hana opinberlega. Meðal þeirra atriða sem Landvernd gagnrýnir eru ofuráherslan á efnahagslegan ávinning eldisfyrirtækjanna, óraunhæfar sviðsmyndir um framtíð lagareldis, að grunnreglur umhverfisréttar séu að engu hafðar, að skortur sé á sannfærandi umfjöllun um áhrif fiskeldis á losun gróðurhúsalofttegunda og að umfjöllun um áhrif á villta laxastofna og aðrar atvinnugreinar sé ófullnægjandi í skýrslu ráðgjafarfyrirtækisins.

Hæstv. forseti. Það er full ástæða til að leggja við hlustir þegar Landvernd segir skýrsluna endurspegla „draumóra fiskeldisiðnaðarins“, með leyfi forseta, og að meira sé gert úr efnahagsáhrifum en umhverfisáhrifum. Af þessu tilefni langar mig að inna hæstv. matvælaráðherra eftir því hvort hún hafi kynnt sér athugasemdir Landverndar og myndað sér skoðun á þeim. Í annan stað langar mig einnig að heyra hvernig hæstv. ráðherra hyggst nýta ráðgjöf Boston Consulting Group í vinnunni fram undan.