Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

niðurskurður fjár vegna riðu.

[15:26]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Eins og komið hefur fram í fréttum þá hefur komið upp riða á tveimur sauðfjárbúum í Miðfirði nú á síðustu vikum. Þetta er auðvitað gríðarlegt áfall fyrir þá bændur sem fyrir verða og í sjálfu sér fyrir svæðið allt, sem þetta hefur áhrif á til töluverðs langs tíma. Viðbrögð við því þegar riða kemur upp eru, eins og við þekkjum, að fé er skorið niður, ákveðið hreinsunarstarf unnið, biðtími og þar fram eftir götunum. Síðan eru íþyngjandi hömlur sem munu eiga við um allt sauðfé í Miðfjarðarsveit næstu tvo áratugina. Frá aldamótum hafa að jafnaði komið upp tvö riðutilfelli á ári en á sama tíma hefur reglulega verið uppi umræða um það hversu illa gangi á köflum að viðhalda girðingum og sauðfjárveikivarnarlínum og að þeim verkefnum sé ekki sinnt með forsvaranlegum hætti.

Nú hafa bændur í Húnaþingi vestra sent matvælaráðherra ályktun þar sem óskað er eftir öðrum lausnum en þeim sem viðhafðar hafa verið. Bændur þar vilja m.a. sjá sambærilega viðauka við reglugerð hérlendis og er í Evrópusambandsreglugerð sem veitir undanþágur gegn niðurskurði alls fjár, skoða tækifærin sem gætu falist í því að einangra hólf þar sem smit hefur greinst og fleira slíkt.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvernig þessi mál horfi við henni núna, hver fyrstu viðbrögð séu við þessari málaleitan bænda í Miðfirði og í Húnaþingi vestra og hvort einhverra sérstakra ákvarðana sé að vænta hvað riðu almennt varðar frá hæstv. ráðherra eða ríkisstjórninni í fyrirsjáanlegri framtíð. Þetta er auðvitað saga sem kemur upp reglulega og alltaf er staðan jafn ömurleg og við verðum vitni að nú.