Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[17:08]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er gott að fá hérna alveg lotu af spurningum en sjáum hvernig okkur gengur með tímann. Fyrst lækkunin úr 60% niður í 35% á endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu við eigin húsnæði og vinnu við húsnæði. Það er auðvitað aðhaldsaðgerð til að slá niður verðbólguna en hún yrði alltaf tímabundin og myndi væntanlega fara aftur upp í 60%. Hún var einu sinni hækkuð í 100% þegar við vorum að spýta í. Svo dettur hún niður í 60. Ég held jafnvel að við höfum gert það of seint að draga úr þessum stuðningi. Ég held að þenslan hafi aukist um of vegna þessa. Núna er verið að leggja til að slá þetta alveg niður. Ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni að þetta gæti haft vond áhrif þegar við erum að reyna að byggja húsnæði á viðráðanlegu verði. Það sem mér þætti koma til greina og beini því bara til umfjöllunar í þingnefndum er að það mætti alveg hugsa sér hvort undanskilja ætti þessa endurgreiðslu til óhagnaðardrifinna félaga sem eru að byggja íbúðir á viðráðanlegu verði vegna þess að það er óþarfi að vera að hækka þann hluta þegar ríkið er í raun og veru bæði að niðurgreiða lán og koma með stofnframlög og sitthvað fleira. Þá er svolítið verið að taka með annarri hendinni og gefa með hinni. En aðalhugmyndin með þessari aðgerð er að slá niður verðbólgu með auknu aðhaldi.

Varðandi skipulagsstopp orkusveitarfélaganna þá hef ég fullan skilning á sjónarmiðum sveitarfélaganna og það er ósanngjarnt gefið. Ég held að það séu til ýmsar leiðir til að leysa úr því en hvort við getum gert það hér í þinginu á nokkrum vikum efast ég um og ég held að við þurfum bara að taka samtal við orkusveitarfélögin um þetta. Ég deili þeim áhyggjum með þingmanninum að ef þetta yrði til þess að við myndum ekki virkja neitt á næstu árum þá munum við aldrei ná orkuskiptum eða þeim loftslagsmarkmiðum sem við erum að sækjast eftir.

Ég skal koma inn á samvinnuverkefnin og ökutækin í síðara svari mínu.