Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[17:23]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og tek undir með honum að ég bind sannarlega vonir við farsældarlögin, en þau verða að fjármagna. Og tískuorðið sem mikið er notað af hæstv. ráðherrum, snemmtæk íhlutun, hún verður að vera fjármögnuð því að peningarnir skipta líka máli þegar að þessu kemur.

En það er þannig, forseti, að margar alþjóðlegar rannsóknir, gamlar og nýjar, sýna glöggt að ójöfnuður hefur áhrif á heilsu fólks, ekki síst andlega heilsu. Ríkisstjórn sem vinnur gegn ójöfnuði slær því margar flugur í einu höggi. Meðal þeirra sem eru í mestri hættu er fólk í viðkvæmri stöðu, þar á meðal börn og innflytjendur. Innflytjendur hér á landi hafa aldrei verið fleiri. Við þurfum á þeim að halda til starfa og gætum ekki haldið uppi hagvexti án þeirra.

Það fylgja því einnig áskoranir fyrir samfélagið, ekki síst skólana. Það er mjög mikilvægt að þjálfa fleiri kennara í að kenna og ná til nemenda sem ekki tala íslensku og nauðsynlegt að setja aukið fjármagn og kraft í íslenskukennslu á öllum skólastigum. En það er ekki gert ráð fyrir því í fjármálaáætlunum nægilega. Hvers vegna ekki? Ég óska eftir skýringum hæstv. ráðherra í því efni.

Sú ánægjulega þróun hefur átt sér stað að fleiri nemendur leita nú í starfsnám á framhaldsskólastigi. Starfsnámið er mun dýrara en bóknám og þessari þróun verður að fylgja aukið fjármagn. Verkstæði verða að vera til staðar við skólana með tilheyrandi tækjakosti. Verkmenntaskólarnir þurfa að endurnýja tækjakost reglulega til að halda í við tækniþróunina en til þess hafa þeir ekki nægilegt fjármagn og það ástand mun ekki batna á næstu fimm árum gangi fjármálaáætlunin eftir og það gengur ekki. Menntastefnu með áherslu á aukið starfsnám þarf að fylgja mun meira fjármagn en gert er ráð fyrir í fjármálaáætluninni eigi hún að ganga eftir. Getur hæstv. ráðherra ekki tekið undir það, eða má skilja það að það séu skilaboð gefin með fjármálaáætluninni að það eigi að hverfa af þessari braut og snúa aftur í sama farið?