Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[17:25]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Mig langar aðeins að bæta við svar mitt í fyrri umferðinni. Þar eru, ef ég þekki þetta rétt, um 100 milljónir sem eru settar í sálfræðiþjónustu í framhaldsskólunum sem eru þá til viðbótar. Við erum líka með fjármagn í að halda utan um börn af erlendum uppruna sem er talsvert meira en við höfum áður haft.

Varðandi síðan umræðuna um þennan vissulega mikla kostnað eða meiri kostnað í starfsnáminu en í bóknáminu þá munum við auðvitað sjá fækkun þar og fjölgun í starfsnáminu og síðan aukinn kostnað sem fylgir hverjum stökum nemanda. Þá er áhugavert að átta sig á því að ríkið á yfir einhverja 500.000 m², þar af eru þeir í þessu ráðuneyti að ég held yfir 250.000, þ.e. 52% af öllum fermetrum sem ríkið hefur til ráðstöfunar eru hér. Það er auðvitað mjög dýrt að eiga allt þetta húsnæði og reka þannig að ég held að þar verði talsverð áskorun á næstu árum sem ég veit að ráðuneytið er byrjað að skoða og þar verða einhver tækifæri.

Öll sú vinna sem er þar í gangi og varðar starfsnámið hefur verið kynnt öllum. Það er mjög mikilvægt þegar við erum að fara að sjá svona miklar breytingar, þar sem er annars vegar fækkun á bóknámsnemum og hins vegar veruleg fjölgun á starfsnámsnemum, að sjá fyrir sér hvernig uppbyggingin er. Ráðherra hefur nú kynnt það sérstaklega og getur lagt af stað bæði í ár og á næsta ári samkvæmt fjármálaáætluninni og svo verðum við að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér. En þetta er fyrst og fremst samtal sem verður að eiga við skólasamfélagið og allt og alla. Ég veit að það er þangað sem ráðuneytið ætlar.