Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:11]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hans svar. Ég vil vekja bara athygli á að það er hægt að spara á ýmsan hátt, það er hægt að draga saman í rekstri. Spurning hvort það eigi að koma niður á stofnanaumhverfinu eða þjónustu við börn. Það er kannski það sem ég vil draga hérna fram.

Mig langar að vekja athygli á þeirri hættu sem við blasir ef þessi markmið í áætluninni nást ekki. Í áætluninni er m.a. bent á að það sé hætta á að viðunandi námsárangur náist ekki og að börnin okkar upplifi ekki þá vellíðan sem þau eiga sannarlega rétt á. Þeir mælikvarðar sem við höfum verið að styðjast við, svo sem eins og PISA, staðfesta að við höfum verk að vinna. Því er bráðnauðsynlegt að viðunandi árangur náist á tíma fjármálaáætlunarinnar.

Mig langar hins vegar til að nýta þann tíma sem ég á eftir til að minnast á það sem haft var eftir formanni Félags leikskólakennara í fréttum nýverið þar sem hann segir m.a., með leyfi forseta:

„Sveitarfélögin í landinu verða að sammælast um að hægja á vexti leikskólastigsins og stíga skref til baka. Það þarf að kæla kerfið þannig að nýliðun nái að auka hlutfall kennara með leyfisbréf í leikskólum landsins.“

Fagfélag leikskólakennara hefur greinilega áhyggjur af því að krafan um fjölgun leikskólarýma geri það að verkum að ekki takist að manna stöður á leikskólum með fagmenntuðu fólki. Er atvinnulífið að setja of mikla pressu á sveitarfélögin og á foreldra? Kæmi til greina að mati hæstv. ráðherra að skoða aðrar leiðir til að brúa þetta bil, t.d. með því að lengja fæðingarorlof? Gæti það ekki verið ein af þeim leiðum sem hægt væri að fara til að minnka það álag sem nú er til staðar í öllum þéttbýlisstöðum landsins?

Að lokum, af því að ég er upptekinn af farsældinni: (Forseti hringir.) Hvað segir farsældin um það að börn fari í gæslu frá 12 mánaða aldri og er ekki eðlilegt og rétt (Forseti hringir.) að börn fái að dvelja lengur með foreldrum sínum á fyrstu stigum æviskeiðsins?