Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:39]
Horfa

(Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Í viðskiptastefnu Bandaríkjanna er um þessar mundir lögð mikil áhersla á að utanríkisviðskipti stuðli að sanngjörnum viðskiptaháttum, tryggi velferð almennra launþega og hvetji til leiða til að bregðast við loftslagsbreytingum o.s.frv. Bandaríkin leggja áherslu á samstarf við bandamenn, ekki síst til að vega upp á móti áhrifum Kína á heimsvísu. Bandaríkin eru vissulega að skoða leiðir til að auka samstarf við ríki og svæðisbundin samtök ríkja um ýmsa þætti til að greiða fyrir viðskiptum, en það má kannski segja að heiðarlega svarið við því hvort eitthvert alvöru líf sé í fríverslunarviðræðum við Bandaríkin sé: Nei.

Ástæðan fyrir því er að Bandaríkin eru einfaldlega ekki á þeim buxunum að gera fríverslunarsamninga. Af því leiðir að ekki er vilji þar til að skoða af neinni alvöru að gera fríverslunarsamning, en ég veit að bæði hefðum við áhuga á því sem og EFTA o.s.frv. Staðan er einfaldlega sú að Bandaríkin eru heilt yfir og almennt ekki að gera fríverslunarsamninga um þessar mundir. Hins vegar erum við, í gegnum EFTA, almennt í viðræðum um fríverslunarsamninga og eru þar ýmsir jákvæðir hlutir að gerjast.

Til að nefna það í lokin, þá höfum við árlegt efnahagssamráð þar sem m.a. er farið yfir hvernig efla megi viðskipti milli landanna. Þetta samráð hefur reynst mikilvægur vettvangur til að taka upp mál sem varða hagsmuni Íslands og vekja athygli á hindrunum í vegi fyrirtækja og fjárfesta, ásamt því að vera góður vettvangur til að skiptast á upplýsingum, skilgreina sameiginlega hagsmuni og efla enn frekar tvíhliða samskipti Íslands og Bandaríkjanna á sviði viðskipta- og efnahagsmála. Það er okkar leið eins og staðan er núna.