Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:42]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Frú forseti. Ég vil þakka utanríkisráðherra fyrir svarið. Það var áhugavert að í ferð utanríkismálanefndar var þetta m.a. tekið upp. Ég held að það sé mjög jákvætt að við reynum að halda áfram að hamra þetta járn eins og frekast er unnt. Það skiptir okkur miklu máli og við erum auðvitað alltaf að verða samkeppnishæfari á svo mörgum vígstöðvum. Bandaríkin eru gríðarlega stór og mikilvægur markaður fyrir útflutningsafurðir Íslands, en einnig fyrir hugvit eins og var til að mynda komið inn á varðandi græna orku og græn umskipti.

Í síðari fyrirspurn minni langar mig aðeins að nefna mál málanna; varnarmál. Ég vil byrja á að lýsa ánægju minni með að áfram verði stutt dyggilega við Úkraínu á næsta ári, en framlög til varnarmála koma til með að aukast á tímabilinu. Í ljósi þeirrar stöðu sem blasir við í öryggismálum álfunnar er vart annað hægt heldur en að koma aðeins inn á varnarmálin. Á grundvelli samnings við varnarmálasvið Gæslunnar er fjármagni veitt til að tryggja að íslensk varnarmannvirki geti með sóma gegnt hlutverki sínu, en einnig er nefnt mikilvægi þess að fjölga markvisst sérfræðingum á sviði öryggis- og varnarmála. Þannig megi auka framlag Íslands gagnvart samstarfsríkjum. Aukið samstarf okkar helstu vinaþjóða, Norðurlandanna, á sviði varnarmála liggur fyrir en þannig má efla sameiginlegar varnir og hámarka nýtingu fjárframlaga.

Ég vil því spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort fyrirhugað sé að efla samvinnu okkar við þau lönd sérstaklega og hraða þekkingaröflun, í ljósi þess hversu mikil samvinna er innan Norðurlandanna og meðal Íslands og Norðurlandanna á svo fjölmörgum sviðum.