Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:44]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Það er svo að norrænu ríkin hafa stóraukið samstarf í öryggis- og varnarmálum og Ísland hefur verið að auka þátttöku sína umtalsvert. Þessi áhersla skýrist auðvitað af breyttum öryggishorfum og inngöngu Finnlands og vonandi mjög bráðlega Svíþjóðar í NATO. Gríðarlega miklir möguleikar felast í þessu samstarfi, bæði til að styrkja öryggi í Norður-Evrópu og í raun allra bandalagsríkja. Ísland hefur aukið þátttöku í hermálasamstarfi Norðurlandanna og við höldum varnarmálaráðherrafund NORDEFCO hér á Íslandi í júní, í samstarfi við Svía sem fara með formennsku í samstarfinu. Bæði eru áætlanir um að fjölga sérfræðingum á sviði öryggis- og varnarmála og efla sérstaklega samstarf við vinaþjóðir. Á öllum þeim stöðum þar sem við erum í samstarfi erum við að þétta og dýpka það samstarf og taka virkari þátt á stöðum þar sem við höfum ekki endilega gert það á undanförnum árum, sem endurspeglar í raun bara veruleikann eins og hann blasir við núna. Bæði erum við að gera það og ef horft er sérstaklega á samstarf Norðurlandanna þá hefur eðli samstarfsins þeirra á milli breyst. Efnisinnihald samstarfsins, ef horft er undanfarin tæp tvö ár aftur í tímann, hefur þróast mjög hratt og örugglega í það að verða þéttara og nánara á sviði öryggis- og varnarmála. Ég held að það muni aukast enn frekar og er auðvitað mikið gagn að því fyrir Ísland.