Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[20:07]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég myndi segja að sú stefna birtist m.a. í þjóðaröryggisstefnunni en líka með því að taka virkan þátt með öðrum að móta til að mynda stefnu Atlantshafsbandalagsins, eins og önnur ríki. Ég er þeirrar skoðunar og sé það gerast þar sem ég fylgist með því að við erum að auka samstarf okkar og þétta það, dýpka það og af því leiðir og það fylgir slíkri vinnu betri yfirsýn hjá okkur sjálfum, yfirsýn yfir það hvar við stöndum, hvað önnur ríki eru að gera og hvernig við speglumst í því. Við eigum líka í samtali við okkar helstu samstarfsríki, Norðurlöndin, Bandaríkin, um stefnumótun og framkvæmd öryggismála og þannig gætum við að þessum sameiginlegu öryggishagsmunum sem verða ekki aðskildir frá okkar eigin hagsmunum sem herlausrar þjóðar. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að við höfum tækifæri og burði til að bæta getu okkar hér heima til þess að átta okkur betur á og móta okkur stefnu. En við gerum það alltaf í samstarfi við önnur ríki í gegnum það samstarf sem við erum í, hvort sem það er í Atlantshafsbandalaginu eða öðru svæðasamstarfi og það á þar af leiðandi við um norðurslóðir. En við vitum líka að það er ekki hægt að slíta það í sundur, okkar eigin og svo í samstarfi við aðrar þjóðir.