Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[20:17]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég átta mig á því að ég er hér til svara en ég vona að við finnum tækifæri til að ræða það á dýptina hvar eru tækifæri, að mati hv. þingmanns, til að draga frekar úr ríkisútgjöldum. Hv. þingmaður nefndi að það væri ekki nógu langt gengið og ekki myndi ég vera á móti því og það væri saga til næsta bæjar eða næsta lands ef hér myndi myndast meiri hluti um að ganga lengra í því að draga úr ríkisútgjöldum við meðferð á þessari fjármálaáætlun. Ég þekki stefnu flokks hv. þingmanns um að vilja skipta út íslensku krónunni og ekki bara það, ganga í Evrópusambandið. Ég hins vegar lít svo á að krónan, skammstöfun á gjaldmiðli á Íslandi sé ekki það sem skiptir öllu máli. Ég er ekki þeirrar skoðunar að við munum ná fram einhverri annarri stöðu með öðrum gjaldmiðli án þess að annað fylgi með. Það hvernig okkar örgjaldmiðill stendur hverju sinni er hitamælir á efnahagskerfið eins og það er hverju sinni. Það eru vissulega hlutir sem við ættum að gera betur. Okkur vantar skýrari ramma um kjaraviðræður og vinnumarkað. Vinnumarkaðurinn er einfaldlega efnahagslegur óvissuþáttur hér á Íslandi. Ríkisútgjöld hafa vaxið mjög mikið. Ef við horfum tíu ár aftur þá höfum við nú gengið í gegnum ýmislegt en fyrst og síðast stendur eftir að við höfum auðvitað gengið í gegnum mikið tímabil stöðugleika og góðra kjara hér á Íslandi þar sem staða allra tekjuhópa hefur batnað. Það er auðvitað ekki hægt að bera saman án þess að bera saman alla leið (Forseti hringir.) og horfa til þess að hér á Íslandi eru laun eins og þau eru, hér á Íslandi er tekjujöfnuður eins og hann er. (Forseti hringir.) Þetta eru þættir sem eru með allt öðrum hætti í löndunum sem hv. þingmaður er að bera saman við Ísland.