Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[20:24]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Það er ástæða til að spyrja hæstv. ráðherra út í þau gríðarlegu útgjöld og sívaxandi útgjöld sem við höfum séð hjá þessari ríkisstjórn sem hefur slegið öll met í því efni. En ég verð eiginlega að inna hæstv. ráðherra eftir frekari svörum við sams konar spurningum, til að mynda spurningum frá hv. þingmönnum Jakobi Frímanni Magnússyni og Gísla Rafni Ólafssyni. Hæstv. ráðherra sagði í svörum við þann fyrrnefnda að það væri gaman að mega tala um að fara betur með skattfé og draga úr bákninu og þá væru gríðarleg tækifæri í þeim efnum. Hvenær stendur til að nýta þessi tækifæri? Það þarf bara að hafa hugrekki, sagði hæstv. ráðherra. Hvenær kemur hugrekkið hjá þessari ríkisstjórn? Hæstv. ráðherra sagði líka að það sé bara ákveðin kurteisi að skuldbinda sig til að fara vel með annarra manna fé og þar gætum við sannarlega gert betur. Það er greinilega ekki litið svo á að kosningaloforð stjórnarflokkanna fyrir síðustu alþingiskosningar feli í sér skuldbindingu en hvenær kemur þá að skuldbindingunni? Hæstv. ráðherra sagði líka að þetta væri í rauninni vinna, sparnaður væri bara vinna sem þyrfti að fara í. Og hvenær verður þá farið í þessa vinnu, spyr ég hæstv. ráðherra. Hæstv. ráðherra sagði að það þyrfti að skoða betur hvar mætti spara. Hvenær verður byrjað að skoða? Loks nefndi hæstv. ráðherra að það mætti hugsanlega raða Lego-kubbunum einhvern veginn öðruvísi. Jæja, hvenær ætlar þessi ríkisstjórn að byrja að kubba? Við heyrum alveg stöðugt frá hæstv. ráðherrum og þingmönnum meiri hlutans að það sé margt í ólagi og það þurfi að skoða þetta og fara að gera betur. En hvenær stendur til hjá ríkisstjórn sem hefur setið í nærri sex ár að fara að gera eitthvað í samræmi við — ekki bara kosningaloforðin frá því fyrir sex árum heldur það sem hæstv. ráðherrar og þingmenn endurtaka í sífellu hér í ræðustól og í greinum í blöðunum?