Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[20:29]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Það var ágætt að hæstv. ráðherra skyldi draga það fram að aðrir ráðherrar a.m.k. hafi lítið gert í því að nýta tækifærið til að minnka báknið og bregðast við öllum þessum vanda sem hæstv. ráðherra viðurkennir. Ég er reyndar ekki alveg sammála greiningu hæstv. ráðherra á andstöðu okkar við tillögur hæstv. ráðherra þegar þær hafa verið skynsamlegar sem þær hafa vissulega stundum verið.

En þá að ábyrgðinni og verðmætum, ábyrgð á því að vernda verðmæti. Það felast gífurleg verðmæti í sjálfstæði landsins og ég til að mynda efast um, ef menn vilja líta fyrst og fremst til efnahagslegra verðmæta, að við Íslendingar hefðum getað komist eins vel út úr bankahruninu og þó varð raunin ef við hefðum verið í auknum mæli háð Evrópusambandsregluverkinu. Hvernig má það þá vera að hæstv. ráðherra leggi það til að Evrópulöggjöf verði ráðandi þegar hún hugsanlega einhvern tímann kann að stangast á við íslensk lög, raunverulega íslensk lög, lög sem voru ekki send hér á færibandinu. Í eftirmálum bankahrunsins komu einmitt upp slík álitamál þar sem við treystum á okkar lög, treystum á stjórnarskrána og fullveldisrétt okkar. Hvers vegna í ósköpunum að veikja stöðu okkar hvað það varðar? Því tengt þá var einmitt til umræðu í Evrópuþinginu nú í dag að leggja þessa nýju ofurskatta á flugið. Það var ekki að heyra þar að það væri neinn skilningur á því sem hæstv. ráðherra og fleiri hæstv. ráðherrar hafa reynt að benda á varðandi sérstöðu Íslands eða raunar skilningur á nokkrum þeirra grundvallaratriða sem þetta mun hafa áhrif á. Er ekki tímabært, spyr ég hæstv. ráðherra, að segja að við munum bara ekkert samþykkja þetta fremur en að halda áfram að klifa á því að við viljum ekki vera stikkfrí? Við getum ekki látið draga okkur inn í regluverk (Forseti hringir.) sem hentar á engan hátt íslenskum aðstæðum og getur falið í sér gífurlegt tjón sem getur orðið margfalt meira en fer í utanríkisþjónustuna á þessu ári.