Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[20:40]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Mig langar til að reyna að nota þennan litla tíma sem ég hef hér til að ávarpa a.m.k. tvennt. Fyrir tæpu ári, í júní 2022, birti loftslagsráð greinargerð, ansi hreint góða, um opinber fjármál og loftslagsmál og græna fjárlagagerð. Þetta er býsna gott gagn sem þarna liggur fyrir og mig langaði til að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort það væri unnið með þær tillögur og þær ábendingar sem þarna koma fram, sem vísa auðvitað í bæði alþjóðastofnanir og hvernig önnur lönd gera þetta, og hvort það sé metnaður til þess innan Stjórnarráðsins til að innleiða opinbera fjárlagagerð og gera hana græna, eins og það er orðað þótt það sé auðvitað mikil einföldun að nota það orð. En ég tek eftir því að á bls. 85 í fjármálaáætluninni þar sem greint er frá framlögum til loftslagsmála sem nema 30 milljörðum kr. í ár, lesi ég þetta rétt, árið 2023, þá kemur líka fram á þeirri sömu blaðsíðu að framlögin fara svo lækkandi í beinar aðgerðir, landbúnað og landnotkun og samgöngur. Mig langaði í fyrsta lagi að spyrja um innleiðingu grænnar fjárlagagerðar og svo að spyrja hæstv. ráðherrann út í þessi lækkandi framlög sem hér er verið að greina frá í áætluninni á bls. 85. Það liggur auðvitað fyrir að það væri hægt að spyrja um ýmislegt fleira en ég verð að láta þetta duga í bili.