Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[21:05]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir innlegg sitt og spurningarnar. Orðsporsáhættan hefur breyst í þá veru að hún kemur strax fram. Fjaðrárgljúfur varð t.d. heimsþekkt á örskotsstundu þegar frægur tónlistarmaður tók myndir af sér þar. Það hafði ótrúleg áhrif, ég hef kannað það sjálfur og þekki aðeins til þess svæðis. En við gætum líka séð hina hliðina, þ.e. að ef einhver heimsþekktur aðili, sem er með mikið af fylgjendum, sýnir fram á eitthvað sem er miður gott þá getur það haft gríðarlega neikvæð áhrif. Jarðvarmavirkjanir — eftir því sem ég best veit eru bæði Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur með áætlanir um að ná árangri á þeim sviðum sem hv. þingmaður vísar til. Ég hef ekki heyrt þessar áhyggjur varðandi Carbfix enda gengur sú starfsemi út á það að setja kolefni í jörðu og búa til grjót úr því. En hins vegar liggur fyrir, og það er eitt af því sem verður að skoða varðandi viðskiptin um kolefniseiningarnar, að ef menn fara í þá vegferð að flytja inn kolefni annars staðar frá þá er ekki hægt að gera það án þess að við fáum eitthvað fyrir það. En það er ekki bara þetta sem þarf að huga að. Við erum að tala um skógrækt og ýmislegt annað sem erlend fyrirtæki gætu farið í og ef við hugum ekki að þessum hlutum gætum við setið uppi með mikið af loftslagsverkefnum hér sem myndu ekkert nýtast í okkar bókhaldi. Það er eitt af því sem ég hef sett vinnuhóp af stað um. Varðandi þessi svokölluðu aflausnarbréf var það eitt af því fyrsta sem ég gerði að setja vinnu af stað við að skoða það. Það er löngu farið af stað, skilar íslenskum orkufyrirtækjum milljörðum, norskum orkufyrirtækjum miklu meira. Hugmyndin á bak við kerfið er að fólk sé að greiða þetta til að ýta undir framleiðslu á grænni orku. Mér finnst þetta ekki mjög góð hugmynd og ég hef ekkert legið á þeirri skoðun minni. En við verðum hins vegar að skoða valkostina út frá þeirri stöðu að við erum búin að vera í þessu nokkuð lengi. Við náum ekki að klára að ræða þetta á þessum sekúndum.