Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[21:34]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og innleggið. Almennt, til að bæta því við, þá er það mín lífsskoðun að við eigum að fara vel með opinbert fé. Þetta eru peningar annarra. Við eigum að forgangsraða og ég tel að það séu mjög miklir möguleikar þegar kemur að því að hagræða í ríkisrekstrinum. Ríkið þarf ekki að gera allt. Við höfum held ég öll, ég vil trúa því, ást á íslenskri náttúru og við viljum náttúrunni sem best en það þýðir það ekki að ríkið þurfi að gera alla hluti og það mun ekki geta gert þá og er ekki einu sinni best í því að gera alla þessa hluti. Við þurfum líka að ákveða það, t.d. þegar kemur að þjóðgörðum og friðlýstum svæðum sem við verðum að halda utan um og þurfum að vernda og þurfum að byggja upp innviði, hvort skattgreiðendur eigi að greiða þetta allt saman eða þeir sem njóta, sérstaklega þeir sem koma hingað að heimsækja okkur. Og það er ekkert leyndarmál að ég kom með tillögur til að auðvelda þessa hluti. Við erum að taka um 500 milljónum meira á þessu ári í tekjur af þeim sem nýta sér þjóðgarðana og friðlýstu svæðin. Við þurfum að forgangsraða í öryggismálum og ég er ekki saklaus af því að hafa áhyggjur af náttúruvá og ofanflóðum. Þetta eru öryggismál. Alveg eins og ég fór að tala um utanríkismálin þá ber ég glaður ábyrgð á því að hafa lagt áherslu á að auka fjármagn í varnir okkar. Sömuleiðis þegar hv. þingmaður vísar í heilbrigðismálin, þó svo að þú eigir að gera þetta með eins hagkvæmum hætti og hægt er og nýta fjármuni eins vel og hægt er þá þarftu að forgangsraða í heilbrigðismálum. Ég veit ekki hvort þetta svarar spurningum hv. þingmanns. Ég held að þetta ætti ekki að koma á óvart því að … (Gripið fram í.) Gagnrýni — mér finnst mjög gott að fá gagnrýni á það að við getum gert betur þegar kemur að hagræðingu (Forseti hringir.) og efnahagslegur stöðugleiki er eilífðarmál. Það er eilífðarmál. Við megum aldrei sofna á verðinum þar. Það kemur alltaf verst niður á þeim sem síst skyldi.