Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[22:31]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jódís Skúladóttur kærlega fyrir að spyrja út í starfsumhverfi kvikmyndaiðnaðarins á Íslandi. Eitt af því sem kvikmyndastefnan leggur áherslu á er að styðja við starfsumhverfi og bæta það og sér í lagi að gera það fjölskylduvænt, það er hreinlega markmið í kvikmyndastefnunni. Það sem við sjáum að er að gerast — m.a. vegna þess að við erum með samkeppnishæft umhverfi fyrir kvikmyndaiðnað og höfum verið að fá inn erlenda fjárfestingu í gegnum stórverkefni sem hafa verið að koma hingað og svo höfum við að sjálfsögðu líka verið að fjárfesta í Kvikmyndasjóði — er að umfangið hefur verið að aukast og þá fáum við líka aukinn stöðugleika í starfsumhverfinu samhliða því. Í viðræðum og samtölum við forsvarsmenn þessara stóru fyrirtækja hef ég iðulega lagt mikla og ríka áherslu á það að auka stöðugleika og að það sé að sjálfsögðu farið eftir þeim kjarasamningum sem eru í gildi o.s.frv.

Mig langar að nefna, hæstv. forseti, að það er nýjung í skapandi greinum að móta stefnu til langs tíma. Þá er það að sjálfsögðu ekki þannig að ráðherrann hafi hug á því að vera að teygja sig inn í næsta kjörtímabil heldur miklu frekar að þetta sé almenn stefna og svo séu aðgerðir mótaðar af viðkomandi ráðherra. Það sem hefur gerst með þessu vinnulagi er að fyrirsjáanleikinn hefur stóraukist og vinnubrögð verða mun agaðri vegna þessarar stefnumótunar.