Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[22:53]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Í fyrsta lagi get ég ekki fullyrt að hv. þm. Óli Björn Kárason, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, hafi stutt málið, hugsanlega sat hann hjá. Þetta er til athugunar hér í hliðarsal. En varðandi Kvikmyndasjóð þá vísa ég m.a. í frétt á vefmiðlinum visir.is þar sem rætt er við Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóra Miðla hjá Símanum. Fréttin hefst svo: Kvikmyndasjóður hefur verið tæmdur til Ríkisútvarpsins þetta árið og engin verkefni hjá öðrum miðlum virðast fá styrk.

En látum þetta nægja af fjölmiðlum því að það er greinilega ekki mikilla svara að vænta frá ríkisstjórninni, hvorki varðandi Ríkisútvarpið né einkareknu miðlana þó að þeir fái það viðskiptaráð að gerast áskriftarmiðlar. Ég ætla hins vegar að spyrja um Borgarskjalasafnið og Þjóðskjalasafnið. Borgin fékk eina af sínum undarlegu sparnaðarhugmyndum um daginn og það var að henda enn meira af vandamálum sínum yfir á ríkið og í þessu tilviki Borgarskjalasafni. Þjóðskjalasafnið er nú væntanlega að flytja en mun ekki hafa pláss fyrir Borgarskjalasafnið líka. Telur hæstv. ráðherra eðlilegt að borgin hendi þessu vandamáli í fangið á ríkinu, eða kostnaðinum við að halda utan um rekstur Borgarskjalasafns? Þriðja spurningin, af því að hæstv. ráðherra ræddi um tengsl loftslagsmála við menningarverðmæti eða eitthvað slíkt, er þessi: Sjávarrof er ekki nýtilkomið — það er kannski ekki hægt að tengja það beint við loftslagsmál, en það er það næsta sem ég kemst í að tengja þessa málaflokka saman — en er verið að gera einhverjar ráðstafanir til að vernda fornminjar og aðrar menningarminjar sem eru að glatast þessa dagana vegna sjávarrofs?