154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

916. mál
[13:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni og lít svo á að þingnefndin þurfi auðvitað að kalla til alla þá aðila sem bæði hafa haft skoðanir hingað til og eins sem nefndin fær umsagnir frá, og jafnvel fleiri, til að fara vel yfir þessa möguleika.

Ég ætla bara í lokin að segja að auðvitað þarf að vanda sig við það og það þarf að taka tillit til ólíkra sjónarmiða og annarrar vinnu sem í gangi er, hvort þetta frumvarp samræmist því sem þar er að gerast. En í því sambandi vil ég bara ítreka líka það sem ég hef sagt áður, að við höfum verið að fara í þá átt að veita einstaklingum meiri heimildir til þess að dreifa sínum fjárfestingarkostum, aðallega til stuðnings til að eignast eigið húsnæði. Hér er opnað aðeins á glugga til þess að menn geti haft val um það hvernig fjárfest sé, ekki bara í þeim fjárfestingarleiðum sem vörsluaðilar sannarlega bjóða upp á mismunandi. En hér er verið að auka valfrelsi að einhverju leyti og ég tel að það sé til bóta en tek undir að nefndin þarf auðvitað að fara vel yfir það og vanda sig eins og Alþingi gerir að jafnaði.