154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

umferðarlög.

923. mál
[13:39]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. innviðaráðherra fyrir framsöguna í þessu máli sem mér er ekki alveg ókunnugt þar sem ég hefi setið og sit í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis og fengum við hluta af þessu máli eða helming þess til okkar. Þetta er annar helmingur núverandi tveggja mála sem var skipt upp í tvennt fyrir framlagningu á þessu löggjafarþingi af hæstv. innviðaráðherra, annars vegar EES-innleiðingar og svo hins vegar þetta sem varðar smáfarartæki eins og það er kallað í þessu frumvarpi.

Fyrst vil ég segja, virðulegi forseti, að það er afar ánægjulegt í samhengi þeirrar glímu sem við stöndum frammi fyrir sem heimssamfélag, að reyna að ná tökum á loftslagsvandanum, að sjá þá öru og mikilvægu aukningu í virkum samgöngumátum í hreyfingu fólks af því að því fylgir ekki bara minni útlosun þegar við erum ekki að brenna jarðefnaeldsneyti heldur fylgir því líka meiri hreyfing, meiri útivera og kannski almennt meira heilbrigði. Þess vegna held ég að það sé mikilvægt fyrir okkur hér — í ljósi þess að þetta er svona tiltölulega nýtt tæki á markaði eða nýir möguleikar fyrir okkur að komast um ef við erum ekki bara á tveimur jafnfljótum eða reiðhjóli eða hesti sem enginn er á í borgarlandslaginu nema einhvers staðar á útmörkum þess — að glíma aðeins við það hvaða reglur eigi að gilda um notkun smáfarartækja, nýrra á markaði eins og ég segi, í almannarýminu. Það hlýtur að þurfa að ávarpa það með tilliti til öryggis í almannarýminu, rétt eins og við erum búin að komast að ákveðinni niðurstöðu í samhengi við bíla eða önnur farartæki sem fara hratt yfir.

Það er þetta með almannarýmið og umgengnina í almannarýminu sem þetta frumvarp tekur ekki nema kannski að litlu leyti á en kemur þó aðeins inn á, það er annað atriði sem við glímdum við í umræðum og í framhaldi af þeim umsögnum sem okkur bárust um frumvarpið sem var lagt fram á síðasta löggjafarþingi. Eðli málsins samkvæmt var verið að ræða ekki bara mikilvægi smáfarartækja inn í þessa flóru virkra samgöngumáta heldur líka í rauninni umgengni í almannarýminu með notkun þessara tækja. Það er afar sjaldgæft að við til að mynda sjáum reiðhjól eða barnavagna, sem nær alltaf eru í persónulegri eigu — þó eru dæmi um reiðhjólaleigur hér þar sem hægt er að leigja sér reiðhjól á vegum aðila sem fá til þess sérstök stæði í borgarlandslaginu, svo ég taki höfuðborgarsvæðið sem dæmi — einhvern veginn í reiðileysi á gangstéttum eða utan í vegköntum eða á umferðareyjum þess vegna. Hins vegar er það svo varðandi þennan nýja samgöngumáta að það vill brenna við að þetta liggi eins og hráviði um allt.

Ég man að sumar umsagnirnar sem við fengum um fyrra frumvarp lutu að því að það hlyti að vera mikilvægt fyrir löggjafann að reyna að setja einhvern ramma utan um það eða alla vega einhverjar leiðbeiningar um það hvernig við ætlum að ganga um í almannarýminu. Öll erum við meðvituð um það að bílum skal ekið á götum, bílum skal lagt í þar til gerð bílastæði eða bílastæðahús eftir atvikum. Þetta erum við öll búin að læra. Sama á við um öryggi í almannarýminu, af því að ég nefndi það hér. Ég ólst upp við það og væntanlega fleiri hér í þessum þingsal að það þótti ekki sjálfsagt mál að spenna á sig öryggisbelti þegar ekið var um. Það þótti heldur ekkert endilega neitt tiltökumál þó að það væru fleiri en fimm í fólksbíl sem ætlaður var fimm manneskjum. Það viðgekkst hér víða um land en svo var tekið á því vegna þess að við komum okkur saman um öryggi í samhengi samgöngumátans.

Þetta frumvarp hér, sem hæstv. ráðherra fór snöfurmannlega yfir áðan, er auðvitað að byrja að reyna að ná utan um mikilvægi öryggisins við notkun þessa samgöngumáta, smáfarartækja. Þar þurfum við því miður ekki að ímynda okkur hvað gæti gerst vegna þess að við höfum tölulegar upplýsingar um það þó að það sé skammt síðan notkunin á þessum tækjum hófst eða varð eins almenn eða algeng og hún er orðin í almannarýminu, svo ég haldi nú áfram að tala um það. Það eru sláandi niðurstöður um slysatíðni, sér í lagi ákveðinna hópa sem hafa verið að nýta sér þennan samgöngumáta.

Svo ég leyfi mér, virðulegi forseti, að grípa aðeins ofan í greinargerðina, sem ég veit að hæstv. ráðherra fór örlítið í, þá segir að tilefni og nauðsyn lagasetningarinnar sé raunar að starfshópur sem var sérstaklega settur utan um það verkefni að fjalla um smáfarartæki skilaði ráðherra skýrslu í júní 2022 þar sem fram kemur að umferð smáfarartækja, sérstaklega rafhlaupahjóla, hafi aukist mjög og slys séu algeng.

Áður en ég held áfram að vitna í þessa greinargerð þá er þetta eitthvað sem við getum sjálfsagt öll rifjað upp ef við spólum aðeins til baka í huganum varðandi fréttaflutning á undanförnum mánuðum og árum þar sem við þekkjum dæmi þess og/eða þekkjum einstaklinga sem hafa hreinlega lent í alvarlegu slysi eða fengið einhvers konar skeinur ef það hafa verið minni háttar slys af völdum notkunar á smáfarartækjum.

En svo ég haldi áfram, með leyfi forseta, segir hér jafnframt:

„Þessar breytingar á umferðarvenjum hafa leitt til þess að 17% þeirra sem slösuðust alvarlega í umferðinni árið 2021 voru á rafhlaupahjólum, en umferð þeirra er þó innan við 1% af allri umferð.“

Í hlutfallslegu samhengi er þetta nú bara frekar hátt, vil ég benda á. Þess vegna er ég að fara yfir þetta í rólegheitum hérna aftur þó að ég viti að hæstv. ráðherra hafi gert það áðan líka. Þá segir áfram, með leyfi forseta:

„42% alvarlega slasaðra í umferðinni árið 2021 voru gangandi, hjólandi eða á rafhlaupahjóli og stór hluti slíkra slysa átti sér stað seint á föstudögum eða laugardögum og eftir miðnætti að þeim liðnum.“

Þetta tengist því sem hæstv. ráðherra kom inn á í sinni ræðu og er þá tekið á í þessu frumvarpi með tilliti til ölvunarástands þeirra sem hafa lent í þessum slysum. Til að einfalda þetta þá var það nú afar skýrt í umræðum og þeim heimsóknum og þeim gestakomum sem við fengum fyrir hv. umhverfis- og samgöngunefnd á síðasta löggjafarþingi að þeir aðilar sem þar voru helst undir voru sannarlega karlmenn á miðjum aldri, eins og ég sjálfur, á þessum tímum sólarhringsins, á föstudags- og laugardagskvöldum, sem voru að lenda í slysum en líka börn, eðli málsins samkvæmt ekki á þessum tíma sólarhringsins en við notkun smáfarartækjanna á öðrum tímum vikunnar.

Þetta er grafalvarlegt mál, virðulegi forseti, og það hlýtur að vera verkefni okkar hér á löggjafarþinginu þegar við höfum upplýsingar og staðreyndir um það sem klárlega bjátar á í samfélaginu og það sem við þurfum að herða á og reyna að tryggja, öryggið, að horfa til þess við ákvarðanatöku. Ég held að það sé mikilvægt að fara vel yfir þetta mál. Kannski er öllu einfaldara að þetta er ekki eins umfangsmikið og fyrra frumvarp sem lagt var fram á síðasta löggjafarþingi. Þetta er afmarkaðra, um smáfarartækin, þannig að þá má líka ætla að umsagnirnar verði eitthvað í ætt við það sem við höfum séð áður að undanteknu því sem sannarlega hefur tekið breytingum á milli framlagninga málsins.

Eitt sem ég man eftir, af því að ég hjó eftir því, er að talið er upp í greinargerð með frumvarpinu meginefni þess og þar segir, með leyfi forseta:

„Ríkisaðila er með samþykki ráðherra gert heimilt að setja reglur um notkun stöðureita og gjaldtöku fyrir hana á landi í eigin umráðum.“

Þetta er eitt af þeim atriðum, svo ég komi nú inn á það aftur, sem tengjast því að við erum ekki vön því að sjá barnavagna eða hjól einhvers staðar á víðavangi eins og staðan er í dag en það hættir til varðandi smáfarartækin, þó að mér finnist nú örla á því að það sé eitthvað aðeins betri umgengni. En gott og vel, þetta er enn þá fyrirstaða víða á gangstéttum. Það þarf að klofa yfir á litlum gangstéttum þar sem kannski tvö, þrjú hjól liggja jafnvel saman eða standa í veginum fyrir fólk með barnavagna eða þeim sem þurfa að styðjast við hjálpartæki til að komast um gangstéttar.

Það var töluvert komið inn á það í umsögnum og gestakomum fyrir nefndinni að það þyrfti að hafa skýrar heimildir til þess að takmarka hvar hægt er að skilja þessi hjól eftir. Eitt er almenn kurteisi, áttum okkur á því, en það er augljóst að aðeins vantar upp á hana stundum miðað við hvernig umgengnin virðist vera oft um þessi tæki. Hitt er, til þess einmitt að undirstrika öryggið í almannarýminu, að það eru dæmi þess ef ég hef skilið umsagnaraðila og þá gesti sem komu fyrir nefndina rétt að hægt sé að setja notkun tækjanna ákveðnar skorður með þeim tölvubúnaði sem liggur að baki þeim. Ég sé fyrir mér að hugsanlega sé möguleiki í samstarfi við til að mynda Reykjavíkurborg, sem sveitarfélagsins sem ber ábyrgð á skipulagsmálunum eðli málsins samkvæmt hér á höfuðborgarsvæðinu eða í Reykjavík, að takmarka í rauninni getuna til notkunar smáfarartækja innan ákveðinna svæða á t.d. þeim tímum þar sem við vitum að við getum lent í vandræðum með jafnaldra mína, segjum síðla á föstudagskvöldum eða jafnvel laugardagskvöldum. Og þegar ég segi takmarka er ég ekki að meina að stöðva það að öllu leyti. Við sem höfum búið annars staðar en í miðbænum áttum okkur á því og vitum það vel að við þurfum oft að reiða okkur á þjónustu leigubíla því ekki er í boði að keyra heim til sín eftir að hafa drukkið áfengi á skemmtistöðum í bænum fyrir þau sem það gera. Ef ekki er hægt að komast heim á tveimur jafnfljótum þá höfum við gjarnan pantað okkur leigubíl í þeim tilfellum þar sem það er hægt. Við vitum að leigubílana er ekkert endilega hægt að sækja á öllum götuhornum alls staðar. Við getum gengið að þeim vísum á ákveðnum stöðum, í svokallaðri leigubílaröð.

Mér finnst alveg koma til greina, virðulegi forseti, að það sé skoðað ítarlega í meðförum hv. umhverfis- og samgöngunefndar hvort raunverulega séu heimildir fyrir því eins og staðan er í dag að setja notkun þessara tækja einhverjar skorður á ákveðnum svæðum á ákveðnum tímum. Kannski er þetta bara stillingaratriði hjá þeim aðilum sem veita þessa þjónustu. Þá myndi nú einhver réttilega benda á: Ekki eru þetta allt saman leiguhjól þótt það sé stór meiri hluti. Í einhverjum tilfellum eru þetta eignarhjól, rétt eins og reiðhjól sem ég ræddi hér um áðan. En þetta er, held ég, eitthvað sem hv. nefnd verður að taka til skoðunar vegna þess að þetta gæti verið ein leiðin til þess að minnka líkurnar á því að fólk með kannski sljóvgaða, hvað á maður að segja, hugsun vegna áfengisneyslu velji það að hoppa á næsta smáfarartæki eða hjól, rafhlaupahjól, sem verður á vegi þeirra og lendi svo í framhaldi í slysum. Tölurnar sýna okkur að þetta geta reynst skaðræðistól þótt ég vilji undirstrika það sem ég sagði í upphafi, að þetta er mikilvæg viðbót í flóru virkra samgöngumáta í samfélaginu og stórt og mikilvægt mál til þess að stemma stigu við þeirri óheillaþróun sem við stöndum frammi fyrir vegna loftslagsmála. Ég er ekki að segja hér að ég telji okkur eiga að setja þessu svo þröngar skorður að allir hætti að nota slík farartæki, nema síður væri, en við verðum þegar upp er staðið að leggja okkur fram við það að tryggja annars vegar öryggið í almannarýminu og hins vegar umgengnina í almannarýminu.