154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

breyting á ýmsum lögum vegna samstarfs og eftirlits á vinnumarkaði.

909. mál
[14:30]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Ég hygg að ég og hv. þingmaður deilum svipuðum skoðunum um að launaþjófnaður er eitthvað sem þarf að taka betur á í íslenskri löggjöf. Ég mælti hér fyrir máli á 152. löggjafarþingi um starfskjaralög þar sem var gerð tilraun til að nálgast þetta viðfangsefni og þá sem aðra af þeim leiðum sem hv. þingmaður nefndi hér, þ.e. í gegnum ákveðið fyrirkomulag um févíti. Ég tók þá ákvörðun síðan eftir að það frumvarp hafði fengið þinglega meðferð og ekki reyndist vera á meðal aðila vinnumarkaðarins raunveruleg sátt um þá leið sem hafði verið lögð fram í því frumvarpi — þrátt fyrir að hún hafi einhvern tímann verið til staðar þá reyndist það ekki þegar á hólminn var komið — að fara þá leið að fresta því að takast á við þetta, setja það í frekari vinnu með aðilum vinnumarkaðarins en koma hér fram með frumvarp sem myndi stíga mikilvæg fyrstu skref í að styðja betur við þann hluta sem snýr að samstarfi þeirra sem fara með eftirlit á vinnumarkaði vegna brota á vinnumarkaði og líka koma á þessari samstarfsnefnd stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins sem ég tel gríðarlega mikilvægt því að þar fáum við tækifæri til þess að vinna akkúrat saman að málum eins og þessum, hvernig við tökumst á við launaþjófnað í gegnum þá stefnumótun og aðgerðir sem hægt er að leggja þar fram.