154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

breyting á ýmsum lögum vegna samstarfs og eftirlits á vinnumarkaði.

909. mál
[14:32]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir málefnaleg og greinargóð svör. Umræðan um starfskjaralagafrumvarp hæstv. ráðherra hér í þingsal var auðvitað ein af birtingarmyndum þeirrar sundrungar sem hefur ríkt í stjórnarmeirihlutanum um málefni vinnumarkaðar.

Mig langar að víkja hér að öðru sem er starfsemi starfsmannaleigufyrirtækja. Ég ræddi nýlega við smið sem gaf mér mjög sláandi lýsingar af vinnustaðnum sínum. Hann var að vinna á byggingarstað þar sem hann lýsti eiginlega fullkominni aðskilnaðarstefnu milli Íslendinganna sem voru að vinna þar og svo hins vegar þeirra starfsmanna sem voru á vegum starfsmannaleigufyrirtækis; borðuðu ekki saman, töluðu ekki saman. Það var fullkominn aðskilnaður þarna á milli og auðvitað vissu allir Íslendingarnir að þetta erlenda starfsfólk væri á miklu verri kjörum en þeir. Hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér að nota þá mánuði sem eftir eru af ráðherratíð hans í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu til að reisa ákveðnar skorður, ég held að það sé bara nauðsynlegt, við þessari starfsemi og þessum umfangsmikla innflutningi á vinnuafli í gegnum starfsmannaleigufyrirtæki? Norðmenn hafa líka verið framarlega á þessu sviði og stigið mjög stór skref á þessu kjörtímabili undir forystu jafnaðarmanna. Hefur hæstv. ráðherra einhverjar lausnir? Eru einhverjar aðgerðir í pípunum hvað þetta varðar, að koma böndum á starfsemi starfsmannaleigufyrirtækja?