154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

fæðingar- og foreldraorlof og sorgarleyfi.

910. mál
[15:34]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að þegar ég óskaði eftir andsvarinu ætlaði ég að ræða við hv. þingmann um nokkra hluti sem hún taldi svo bara upp beint á eftir. Það breytir því ekki að ég held að það sé bara ágætistilefni til að ræða sýn okkar á þessi mál vegna þess að mér heyrist við mjög sammála um þá hluti sem þarf að gera og velta upp.

Mér hefur verið mjög hugleikið þetta hlutfall, 80%, í ljósi þess tilgangs sem fæðingarorlofsgreiðslurnar eiga að mínu viti að gegna sem er að gera það raunhæft og, hvað eigum við að segja, eftirsóknarvert að eignast börn, þ.e. að það þýði ekki fyrir þig sjálfkrafa tekjumissi. Ef við setjum þetta upp í þetta skema, að 80% af laununum séu það sem í raun bíði þín og þó ekki hærra en þetta, þá erum við að senda þau skilaboð að barneignir feli sjálfkrafa í sér tekjumissi um 20%. Og það kostar bara heljarinnar helling að eignast börn. Það er bara mjög dýrt. Þannig að ég átta mig ekki á hvatanum í þessu kerfi.

Það er samfélagslega ótrúlega arðbært að ungt fólk á Íslandi sjái sér fært að eignast börn, svona til langs tíma og heilt yfir litið þótt það kosti okkur einhverjar krónur og aura í kassann að greiða fyrir það, en skilaboðin sem við sendum eru: Þú verður samt fyrir 20% tekjumissi, bara svo við höfum það á hreinu. Það finnst mér einmitt vera svona: Já, þú veist, þú átt helst að tapa á þessu. Það eru skilaboðin sem við sendum með þessu 80% þaki. Auðvitað þarf að vera einhvers staðar punktur þar sem við segjum: Ókei, við getum ekki greitt þér þrjár milljónir á mánuði fyrir að vera í barneignarleyfi, það er bara svolítið mikill peningur fyrir ríkissjóð að leggja út. En þessi sjálfkrafa skilaboð, það er kannski þess vegna sem mér finnst mjög mikilvægt að velferðarnefnd taki þetta hlutfall líka til skoðunar þótt það sé ekki hluti af þessu frumvarpi, þ.e. bara skilaboðin sem þetta sendir.